Starfsmenn heilbrigðisráðuneytis hafa lokið við að funda með framkvæmdastjórnum heilbrigðisstofnana í landinu um fyrirætlaðan niðurskurð á næsta ári. Ekki er ljóst hvort og þá hvernig fjármálafrumvarpið tekur breytingum í umræðum á alþingi en það fer að líða að ákvarðanatöku. Stjórn LH mun bíða með frekari fundarhöld þar til skýrari línur verða lagðar. Áfram verður unnið að bættum samskiptum við ráðuneytið og kannaðir möguleikar á sameiginlegum vinnufundi LH og HBR.

Skrifað af MG

Heilbrigðisráðuneyti hefur óskað eftir tilnefningu Landssambands heilbrigðisstofnana í tengslahóp vegna undirbúnings velferðarráðuneytis.  Í bréfi frá Heilbrigðisráðuneytinu segir m.a. "Til þess að tryggja að unnið verði að sameiningunni á samræmdan hátt er meðal annars lagt til að settir verði á fót tengslahópar vegna nýrra ráðuneyta.  Í hópnum skulu eiga sæti fulltrúar þingflokka, formenn FSS, FHSS, Félags forstöðumanna ríkisstofnana og aðrir hagsmunaaðilar eftir ákvörðun verkefnisstjórna.  Hlutverk tengslahópsins er að vera vettvangur fyrir upplýsingar og farvegur til þess að koma sjónarmiðum á framfæri.  Hópurinn mun hittast eftir þörfum".

Stjórn LH hefur tilnefnt Margréti Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra HAK,  sem sinn fulltrúa í tengslahóp. Áformað er að fyrsti fundur ráðuneytis með hópnum verði þriðjudaginn 23. nóvember.

Skrifað af MG

Stjórn LH óskaði eftir fundi með heilbrigðisráðherra og var boðuð á hans fund 7. október s.l. 

Á þeim fundi var lögð áhersla á almennri umkvörtun forstöðumanna heilbrigðisstofnana um skort á samvinnu og samráði af hálfu HBR.  Auk ráðherra voru á fundinum aðstoðarmaður ráðherra, ráðuneytisstjóri auk þriggja annara starfsmanna ráðuneytisins.  Af hálfu LH mættu þau Birgir Gunnarsson, Margrét Guðjónsdóttir og Magnús Skúlason.

Ágætar umræður voru á fundinum og lýsti ráðherra sig fúsann til samstarfs og reiðubúinn til að koma samskiptamálum í betra horf. Stjórn LH viðraði hugmynd að sameiginlegum fundi LH og HBR með framkvæmdastjórnum stofnana þar sem farið yrði yfir þessi mál og leitað lausna.  Stjórn LH óskaði einnig eftir að heilbrigðisráðherra tilnefndi tengilið HBR við LH. HBR lýsti yfir vilja sínum til að funda með stjórnum allra heilbrigðisumdæma (samráðsnefnda) auk þess að skipa tengilið HBR við LH.  Í framhaldi af þeim fundum verður síðan metið hvort ástæða sé til að boða til stærri vinnufundar í samræmi við tillögu LH.  Stjórn LH mun fylgja málinu eftir og leggja sitt af mörkum til að úrbætur nái fram að ganga.  Á fundinum var einnig rætt um vinnulag við fjárlagagerð og það að forsendur fjárlaga skuli ekki liggja fyrir fyrr en í október.  Það eitt og sér gerir það að verkum að virkni uppsagna kemur ekki fram fyrr en langt er liðið á næsta ár í mörgum tilvikum.

Skrifað af MG