Fundargerð vorfundar Landssambands heilbrigðisstofnana haldinn á Sauðárkróki 16-17. maí 2013
Birgir Gunnarsson formaður setti fundinn bauð gesti velkomna og afhenti Jóhönnu Fjólu Jóhannsdóttur fundarstjórn.
Fyrsti liður á dagskránni var:
Dagskrá á vegum velferðarráðuneytisins (13-14:30) og sá Sveinn Magnússon skrifstofustjóri í ráðuneytinu um þann lið. Hann flutti fundinum kveðjur ráðherra og ráðuneytisstjóra. Sveinn ræddi um að mögulegar breytingar gætu verið á döfinni hvað varðar sameinað ráðuneyti, en ýmsar getgátur eru uppi um það að ráðuneytin verði á ný tvö, ráðuneyti heilbrigðismála og ráðuneyti félags og húsnæðismála. Ekkert liggur enn fyrir hvernig málum verður háttað, en embættismenn velferðarráðuneytisins eru að búa sig undir að taka á móti tveimur velferðarráðherrum. Sveinn fór yfir skipurit ráðuneytisins sem er frá 1. júlí 2012 og möguleika á skiptingu málaflokka milli tveggja ráðherra. Hann nefndi skiptingu útgjalda ríkissjóðs og sagði hlut velferðarmála vera 46% af útgjöldum ríkissjóðs en skiptingin er 24% heilbrigðismál og 22% önnur velferðarmál. Hann lagði áherslu á að stofnanir haldi sig innan ramma fjárlaga, en aftók ekki að um einhvern niðurskurð til heilbrigðismála yrði að ræða í komandi fjárlagagerð.
Hann sagði frá CAF-sjálfsmatslíkani sem er aðferð sem nýst hefur stofnunum við að ná bættum árangri í stjórnun og rekstri. Innleiðing á þessu líkani hefur staðið yfir hjá velferðarráðuneytinu. Ráðuneytið kom vel út úr þessu mati og góð reynsla er af því að opinberar stofnanir geri innra sjálfsmat. Upplýsingar varðandi CAF- sjálfsmatslíkanið liggja fyrir á vef ráðuneytisins og einnig má hafa samband við Fjólu eða Önnu Lilju ef áhugi er fyrir því að nálgast matið. Ráðgert er að stofnunum verði boðið upp á CAF- matið og mun bréf berast þar að lútandi fljótlega. Stofnunum er bent á að kynna sér matið vel en það er ákvörðun viðkomandi stofnunar hvort hún nýti sér matið.
Næst nefndi Sveinn nýbirtar
hagvaxtartillögur verkefnastjórnar samráðsvettvangs um aukna hagsæld.
Að umræðunni hafa komið margir aðilar m.a. frá ráðuneytum, einkageiranum og ríkisstofnunum. Í tillögum verkefnastjórnarinnar kemur fram m.a. að opinber þjónusta stendur undir um 20% af framleiðslu hagkerfisins og um 30% af heildarfjölda starfa (167.000) hagkerfisins.
Aukin framleiðni innan hins opinbera (þarf að bæta rekstur hins opinbera um 5% VRL) er besta leiðin til að ná jafnvægi í hagkerfinu (ríkisfjármálum).
Verkefnastjórnin leggur fram 8 tillögur til að ná settu markmiði um aukna framleiðni. Sem dæmi má nefna að varðandi skipulag eru tillögurnar:
1. Sameining stofnana, fækka löggæslustofnunum úr 17 í eina, heilbrigðisstofnunum úr 16 í 7.
2. Efling sveitarstjórnarstigsins,
(sjá nánar um tillögurnar áhttp:// samradsvettvangur.is (fundur 3)) .
Sveinn gaf síðan færi á nokkrum spurningum.
Spurningar: 1. Er Sveinn sjálfur sáttur við sameiningu ráðuneyta og jafnlaunastefnu ríkisstjórnarinnar. Svar: Hann sagðist að mörgu leyti sáttur við sameiningu málaflokkanna sem er í samræmi við fyrirkomulagið í nágrannalöndum, en segir jafnframt að mjög mikið álag sé þegar taka á mál fyrir í þinginu. Jafnlaunastefnan er ekki á hans borði.
2. Hvaða áhrif hafa tíð ráðherraskipti, (eins og í fyrirtæki þá eru ráðherrar stjórnendur þó tímabundið sé). Svar: Tíð skipti stjórnenda í fyrirtæki hefur oftast ekki góð áhrif á fyrirtækið en þetta er lýðræði í hnotskurn.
3. Verr og verr gengur að manna sjúkraflutninga út um landið, hvað er til ráða. Svar: Svæðin þurfa að skipuleggja sig sem best sjálf og vera sem sjálfbærust í þessum málaflokki. Ekki er fyrirhuguð breyting hvað þetta varðar á næstunni.
Gæðavísar í heilbrigðisþjónustunni (15-17)
Notkun gæðavísa í heilbrigðisþjónustu
Laura Sch. Torsteinsson, verkefnastjóri á sviði eftirlits og gæða hjá Embætti landlæknis tók fyrst til máls og lagði áherslu á að heilbrigðisyfirvöld velji og birti gæðavísa sem lýsi faglegum gæðum, gæðum í uppbyggingu þjónustu og gæðum frá sjónarhóli notenda þjónustunnar. Velja þarf réttu gæðavísana og við val þeirra verði lögð áhersla á að þeir uppfylli vísindalegar og fræðilegar kröfur. Gæði og öryggi haldast í hendur. Gæðavísa má nýta til að meta hvort gæði þjónustu séu í samræmi við viðurkennda faglega staðla og viðmið. Mikilvægt er að hafa handbæra áreiðanlega og réttmæta gæðavísa og sýna þarf aðgæslu við val, notkun og túlkun þeirra. Gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu er sameiginleg ábyrgð stjórnvalda, heilbrigðistofnana, stjórnenda, starfsfólks og notenda og brýnt að leita allra leiða til að efla gæði og auka öryggi þjónustunnar. Laura nefndi að hægt er að efla gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar með margvíslegu móti og benti í því sambandi á Leiðbeiningar fagráðs embættis landlæknis um sjúklingaöryggi frá 2012, ¨Eflum gæði og öryggi í íslenskri heilbrigðisþjónustu¨Markmið,framkvæmd,eftirlit (http/www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item19084/Eflum%20gæði%20og%20öryggi%20210113.pdf).
Þróun gæðavísa á Landspítala.
Elísabet Guðmundsdóttir, verkefnastjóri starfsemisupplýsinga á hagdeild LSH.
Elísabet fór yfir starfssemistölur spítalans m.t.t. ákveðinna markmiða og gæðavísa (sjá spítalinn í tölum, htt/www.lsh.is) og dreifði bæklingi um starfsáætlun spítalans fyrir árið 2012-2013.
Markmiðið að sögn Elísabetar er ¨Öruggur spítali¨ (Harmfree care).
Áherslan er á 5 meginn þætti:
Ánægju sjúklinga, gerð þjónustukönnun í maí og nóvember 2012.
Bráðar endurinnlagnir innan 30 daga (gæðavísir eða ekki?).
Gæðavísar sérgreina.
Árangursvísar Landspítala 2012.
Lykilverkefni 2012-2013.
Hún fór yfir niðurstöður þjónustukönnunar í maí og nóvember og var meðalskor í báðum könnunum 9 af 10. Varðandi bráðar endurinnlagnir eru viðmið erlendis frá að allt að 20% sjúklinga leggjast inn aftur innan 30 daga frá útskrift en hlutfall bráðra endurinnlagna á LSH er um 12% (2010-2012). Gæðavísar sérgreina. Margar sérgreinar á spítalanum eru að vinna að sínum eigin gæðavísum í samvinnu t.d. við kollega í nágrannalöndunum og fór hún yfir nokkur dæmi þar að lútandi. Hún sýndi skorkort LSH, Öruggur spítali árið 2012 og fór yfir árangursvísa þar sem fram komu rauntölur og markmið fyrir árið. Hún nefndi dæmi um atvikaskráningu bæði sjúklinga og starfsmanna. Lykilverkefni LSH 2012-2013. Þar voru sett skýr markmið varðandi öryggi sjúklinga. Dæmi; að handþvottur verði 100%, daglegir öryggisfundir, öll atvik verði skráð, ofl..
Þróun gæðavísa á FSA.
Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar og framkvæmdastjóri bráða-, fræðslu- og gæðasviðs á FSA.
Nýbúið er að leggja fram nýja starfsáætlun spítalans fyrir 2013-2014. Gæðavísar á FSA eru notaðir til að meta gæði og árangur í þjónustu spítalans. Hún fór yfir starfsemistölur spítalans með tilliti til markmiða, mælinga og skilgreindra gæðavísa. Hún nefndi m.a. starfsmannasamtöl sem gæðavísi sem þau telja sig þurfa að efla og bæta. Hún spurði hvort mönnun (fjöldi starfsmanna) væri gæðavísir? Fjöldi starfsmanna og samsetning mönnunar hefur tvímælalaust áhrif á gæði og öryggi þjónustunnar. FSA stefnir að því að verða alþjóðavottað sjúkrahús árið 2017. Það kostar mikla vinnu og fjármagn að ná því markmiði.
17:30- 19:00 var óvissuferð með hressingu. Tókst hún með eindæmum vel en farið var með rútu í Sútunarverksmiðjuna á Sauðárkróki. Þar tók fulltrúi verksmiðjunnar á móti hópnum í Gestastofu sútarans og bauð upp á hressingu. Hópurinn var síðan leiddur í gegnum verksmiðjuna með tilheyrandi fræðslu og fróðleik.
Kl. 20:00 var boðið til kvöldverðar á Kaffi Krók. Maturinn góður, söngatriðið betra og félagsskapurinn bestur.
Seinni dagur vorfundarins hófst með dagskrá á vegum Norðlendinga (09-12).
Bráðaþjónusta og sjúkraflutningar í dreifbýli.
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sá um þennan lið, framsögu hafði Ásgeir Böðvarsson framkvæmdastjóri lækninga, en ásamt honum unnu Áslaug Halldórsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar og Jón Helgi Björnsson forstöðumaður erindið.
Vaktþjónustu hefur verið breytt í þá veru að neyðarflutningsmaður er alltaf á vakt á Húsavík, hann er t.d. kallaður til við endurlífgun á sjúkrahúsinu.
Umdæmið er stórt um 5000 manns og mikið um útköll. Vinnufyrirkomulagið er teymisvinna lækna og hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingar taka öll símtöl og sjá um fyrsta viðtal við sjúklinginn. Fyrirkomulagið reynist ágætlega og sjúklingar eru ánægðir.
Sjúkraflutningar eru hluti af rekstri HÞ og eru um 60-70 flutningar á ári í Norður-Þingi en 250-300 sjúkraflutningar í S-Þingi. Fjöldi útkalla er mestur í júlí-ágúst. Reynst hefur vel að mennta heimafólk til neyðarflutninga og er mikill metnaður að sinna bráðþjónustu vel . Fjöldi manns bíður eftir að komast í þjálfun.
Sérfræðiþjónusta í heimabyggð.
Örn Ragnarsson heilsugæslulæknir Heilbrigðistofnunarinnar á Sauðárkróki.
Fæðingarstöðum fækkar og búast má við aukinni sérhæfingu í kjölfarið. 2010 voru 483 fæðingar á svæðinu þar af voru 86 heimafæðingar. Mikil breyting hefur orðið á sérfræðiþjónustu s.l. 30 ár þá voru um 180 skurðstofur á heilbrigðisstofnunum víða um landið sem tóku mikið rými. Síðasti skurðlæknirinn hætti hjá HÞ 1999 en 1997 var samið við farandskurðlækna um að leysa hann af og þegar hann svo hætti störfum tóku þeir við. Þjónustan liggur niðri yfir sumartímann. Engar aðgerðir eru gerðar lengur en nokkuð er um speglanir. Einnig koma aðrir sérfræðingar flestir frá FSA. Kostnaður er mismunandi eftir því hvort HS greiðir sérfræðingum sem koma á staðinn eða hvort sjúklingurinn er sendur á FSA. Mikil ánægja er með fyrirkomulagið og samvinnuna við sérfræðing FSA. Allir eru ánægðir og telja fyrirkomulagið efla þjónustu FSA . Þjónustan er sem stendur í uppnámi vegna niðurskurðar og óvíst um framhaldið.
Staðan í heilsugæslunni.
Margrét Guðjónsdóttir framkvæmdarstjóri hjúkrunar og rekstrarstjóri HAK.
Margrét fór yfir sögulegt yfirlit HAK. Starfsemin þar hófst árið 1985 en árið 1997 tók Akureyrarbær við rekstrinum og þá var gerður þjónustusamningur við Heilbrigðisráðuneytið um rekstur stöðvarinnar. Samstarfið hefur alltaf gengið mjög vel og mörg sóknarfæri í samvinnu heilbrigðis- félags- og skólasviðs. Akureyrarbær hefur stutt vel við HAK. Nú er þó svo komið að 6000 íbúar hafa ekki heimilislækni og mjög erfiðlega gengur að fá lækna til starfa. Hjúkrunar- og ljósmæðraþjónustan hefur lítið sem ekkert svigrúm og heimahjúkrun eykst stöðugt vegna fækkunar vistrýma.
Efla þarf heilsugæsluna en orð duga skammt, auka þarf fjármagn og mannafla til að það sé fram- kvæmanlegt.
Hvaða leiðir eru færar fyrir heilbrigðisstofnanir á norðurslóðum til þess að ráða og/eða halda í hæft starfsfólk?
Hildigunnur Svavarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á FSA.
Skortur á heilbrigðisstarfsfólki í dreifbýli er alþjóðlegt vandamál og Ísland er dreifbýlt land. Tryggja þarf faglega þróun og koma í veg fyrir einangrun. Hildigunnur kynnti samvinnuverkefni sem Ísland er aðili að og nefnist Northern Periphery Programme ¨Recruit and retain¨ er það styrkt af Evrópuráðinu og hefur verið í framkvæmd frá árinu 2011. Verkefnið er fólgið í því að leita lausna í viðvarandi erfiðleikum sem felast m.a. í því að ráða og halda í gott heilbrigðisstarfsfólk í dreifbýli á Norðurslóðum. Hún kynnti jafnframt niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var í tengslum við verkefnið. Heilbrigðisyfirvöld þurfa að styðja og efla stuðning við þá heilbrigðisstarfsmenn sem vilja starfa í dreifbýli svo þeir haldist í starfi. Ef menn vilja kynna sér verkefnið nánar er slóðin www.recruitandretain.eu.
Kynning á rafrænu bókunarkerfi HSB.
SveinfríðurSigurpálsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Blönduóss.
Búið er að setja upp rafrænt tímabókunarkerfi fyrir heilsugæsluna. Markmiðið er að bæta þjónustu við bókun tíma. Verkefnið er unnið í samvinnu við fyrirtækið Heilsuvernd.is sem heldur úti síðunni doktor.is. Hægt er að fara inn í kerfið hvenær sem er og þá kemur fram hvaða tímar eru lausir.
Í dag eru 30% tímabókana hjá HBS rafrænar. Verið er að skoða möguleika á að tengjast snjallsímaforriti Símans. Nánari upplýsingar um rafrænu bókunina er að finna á heimasíðu Hsb.is og þar er tengill inn á doktor.is.
Kynning á fyrirtækinu Iceprótein.
Hólmfríður Sveinsdóttir forstöðumaður. Fyrirtækið er í eigu Fisk-Seafood í dag. Starfsemin er að mestu fólgin í ráðgjöf varðandi matvælaþróun og framleiðslu á fiskpróteinum. Starfsemin er rekin í Verinu sem sinnir menntun, rannsóknum og nýsköpun að stærstum hluta. Verið er vísindagarður, þyrping þekkingarfyrirtækja og rannsóknarstofnana í háskólaumhverfi. Verið er vettvangur samstarfs menntunar, rannsókna og leiðir saman opinbera aðila mennta, rannsókna og fyrirtækja. Annast fyrst og fremst kennslu og rannsóknir. Eigendur Versins eru sveitarfélagið auk annarra aðila. 8 aðilar eru með aðstöðu í verinu og er Iceprótein eitt þeirra (http://www.veridehf.is).
Helstu verkefnin eru fiskeldisrannsóknir, rannsóknir og þróun fiska, hegðun fiska, þjónusta og ráðgjöf/framleiðsla og matvælarannsóknir á vegum Matís en Matís er eitt af þeim fyrirtækjum sem staðsett eru í Verinu á Sauðárkróki auk þessa að vera með starfsemi í Reykjavík. Rannsóknir í Verinu snúast mikið um að fullnýta hráefni, sérstaklega lífvirk lífefni í sjárvarfangi. Þó íbúar í Skagafirði séu aðeins 1,3% af heildaríbúafjölda landsins þá er þar framleitt mjög mikill fjöldi og magn matvæla.
Önnur mál
Engin mál voru tekin fyrir undir þessum lið.
Fundarlok voru um kl. 12 og þakkaði formaður fundarmönnum fundarsetuna og óskaði þeim góðrar heimferðar
ÞÓ. 20