Vorfundur Landssambands heilbrigðisstofnana haldinn á Hótel Héraði Egilsstöðum 10.-11. maí 2012
Fundurinn hófst kl. 13.00 með setningu formanns Birgis Gunnarssonar . Fól hann Jóni Hilmari Friðrikssyni fundarstjórn og Herdísi Klausen fundarritun.
Austurland sterkara saman; Einar Rafn Haraldsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) fór yfir svæði heilsugæsluumdæmis HSA og lýsti staðháttum. Svæðið er um 15.000 km2 og íbúafjöldi um 10.310 manns. HSA varð til við sameiningu allra heilbrigðisstofnana á Austurlandi 1999. Svæðið getur verið erfitt yfirferðar, snjóþungt og víða getur orðið mikil veðurhæð. Einar fór yfir vegalengdir milli staða og ferðatíma. Rekstur HSA hefur verið á niðurleið, stöðugildum hefur fækkað, tekjur og útgjöld hafa lækkað. Á árinu hefst bygging nýs 40 rúma hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum. Ef að „við“ er heilbrigðiskerfið. Erum „við“ á réttri leið? Hvert erum „við“ að fara? Einar kallar eftir nýrri heilbrigðisstefnu og hvetur til uppbyggingar í stað niðurskurðar. Hann telur mjög mikilvægt að tengja saman sjúkraskrár landshlutanna við LSH og SA og að sérfræðingar skráii í sameiginlega skrá. Hann vill að peningum sé úthlutað á heilbrigðissvæðin svo þau geti keypt sérfræðiþjónustu inn á svæðin. Auka þarf heilbrigðisuppeldi landsmanna og gera þarf Ísland fýsilegra fyrir unga lækna.
Magnús Þ.Ásmundsson forstjóri Alcoa á Íslandi fór yfir sögu Alcoa Fjarðaáls. Sjúkrahús með bráðamóttöku var ein af forsendum staðarvals. Engin slys urðu á byggingatíma álversins. Í dag eru 336 ker í álverinu og umtalsverð sjálfvirkni. Um fjórðungur framleiðslunnar er fullunnir álvírar. Útflutningshöfn er Mjóeyrarhöfn sem er ein stærsta útflutningshöfn landsins. Um 700 manns starfa á álverssvæðinu. Markmið Alcoa er að vera besta fyrirtæki í heiminum, í augum viðskiptavina, starfsmanna, hluthafa, almennings og þeirra samfélaga sem að Alcoa starfar í. Fjarðaál þarf að laða til sin hæft starfsfólk og halda því. 50% af vinnuafli er aðflutt. Gerð er krafa um að allir tali íslensku. Góð heilbrigðisþjónusta er ein af grunnforsendum þess að fólk setjist að í samfélagi. Neikvæð umræða um heilbrigðisþjónustu á atvinnusvæði s.s. niðurskurður hefur vond áhrif. Öryggismál eru ofarlega á forgangslista hjá Fjarðaáli og allir starfsmenn fá ítarlega fræðslu í þeim efnum. Mikil áhersla er lögð á að vinnustaðurinn sé eins öruggur og kostur er. Starfsfólkinu á að líða vel í vinnunni og markmiðið er að engin vinnuslys verði hjá fyrirtækinu. Fjarðaál gætir einnig vel að almennri heilsu starfsmanna og þeim stendur til boða víðtæk velferðarþjónusta. Hún felur meðal annars í sér að starfsfólk hefur aðgang að þjónustu lækna, hjúkrunarfólks, sálfræðinga, lögfræðinga og ýmissa annarra sérfræðinga sér að kostnaðarlausu ef þeir þurfa á slíkri þjónustu að halda. Í heilsusetri álversins er jafnframt unnið að öflugum forvörnum. Fullkomin heilsugæsla er á staðnum og þar starfa tveir hjúkrunarfræðingar í fullu starfi. Önnur heilbrigðisþjónusta er keypt af HSA. Álverið kemur að rekstri slökkviliðs og sjúkraflutninga á svæðinu og aðstoðar önnur fyrirtæki í öryggismálum. Breytt sýn hefur orðið á öryggismenningu á svæðinu með tilkomu álversins. Sjálfbærniverkefni Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar, sem ráðist var í í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og Fjarðaáls, hefur vakið athygli víða um heim. Efnt var til víðtæks samráðs með hagsmunaaðilum til að ákveða hvaða þætti í umhverfi, efnahagslífi og samfélagi bæri að vakta til að fylgjast með áhrifum uppbyggingarinnar, jákvæðum sem neikvæðum. Haldið er úti vefsíðu þar sem fylgjast má með niðurstöðum úr vöktuninni. www.sjalfbaerni.is Alcoa veitir styrki til ýmissa samfélagsverkefna.
Stefanía G. Kristinsdóttir verkefnastjóri kynnti verkefnið „Austurbrú“ . Stofnfundur Austurbrúar ses var haldinn 8.maí s.l. á Reyðarfirði.Yfir 30 stofnaðilar eru að Austurbrú, þar á meðal eru öll sveitarfélögin á Austurlandi, allir háskólar landsins, helstu fagstofnanir, stéttarfélög og hagsmunasamtök atvinnulífsins, framhaldsskólar og þekkingarsetur á Austurlandi. Stefanía fór yfir forsögu verkefnisins en hún var verkefnastjóri. Undirbúningur sameiningunni hefur átti sér stað í tveimur áföngum. Fyrri áfanga lauk með skýrslu vinnuhóps Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) „Endurskoðun á stoðkerfi atvinnulífs, menntunar og menningar á Austurlandi“, seinni áfanginn hófst haustið 2011 með skipan verkefnisstjórnar sem vann að sameiningunni. Á stofnfundinum var kosið í stjórn og fagráð fyrir hina nýju stofnun, undirritaðir samningar við ríkisvaldið og fleiri aðila. Heimasíða er . www.austur.is
Rafræn sjúkraskrá-staða mála og framhald. Björn Jónsson deildarstjóri á heilbrigðis- og upplýsingatæknisviði LSH kynnti stöðu mála á LSH en þar er kerfið í endurskoðun. Rafræn sjúkraskrá LSH = öll kerfi sem snúa að klínískri starfsemi spítalans. Tæknilegur stuðningur við fagfólk mikilvægur, ýmsar nýjungar á döfinni s.s spjaldtölvur o.fl. Öll ný lækningatæki skila gögnum inn í rafræna sjúkraskrá.Nauðsynlegt er að vinna að samtengingu sjúkraskrárgrunna og sameiginlegum lyfjagrunni. Björn benti á Ljórann (www.ljorinn.is ) sem er fjaraðgangur að klínískum kerfum LSH og hægt að gera samning um notkun á. Gagnlegt fyrir sjálfstætt starfandi sérfræðinga og heilbrigðisstofnanir. Björn ræddi um samnýtingu rannsóknarstofukerfa og myndgreiningarkerfa, margþætta hagræðingu og verulegan fjárhagslegan sparnað. LSH hefur þegar gert samning við nokkrar stofnanir. LSH getur einnig nálgast gögn frá öðrum stofnunum gegnum heilsugátt en sú vinna er í þróun. Varðandi framtíðina: þá eru tvær leiðir. A: kaupa nýtt heildarkerfi, B: Halda áfram að þróa núverandi kerfi og tengja saman stofnanir. Flestir sammála að A verði lokaniðurstaðan en það er dýrt og tímafrekt. Mikill vilji að fara leið A sem allra fyrst. Vinnuhópur á vegum VEL fjallar um málið og skilar af sér fyrir 30.júní. Björn fór yfir helstu markmið sem ætlað er að ná með samtengdri sjúkraskrá, tillögur um innleiðingu á samrekinni og samtengdri skrá á landsvísu og skjal sem sent verður til erlendra birgja vegna nýrrar sjúkraskrár. Eftir 30.júní verður sumarið notað til að melta innihald skýrslunnar og næstu skref ákveðin. Í september verður afstaða tekin til skýrslunnar og tekin ákvörðun hvort ráðist verður í verkefnið auk þess að tryggja fjármagn. Um áramót gæti verkefnið verið komið á fullt. Samhliða þarf að vinna fjölmörg verkefni, s.s. reglugerðarbreytingar o.fl. Kaup og innleiðing á sjúkraskrárkerfi á landsvísu er flókið verkefni. Stefnan er sett á eitt heildarkerfi sem tekur á flestum þáttum og nýtist öllum.
Sigríður Haraldsdóttir sviðstjóri í heilbrigðisupplýsingum hjá Landlæknisembættinu sagði frá því að embætti landlæknis var þann 1. mars síðastliðinn falin ábyrgð á og yfirumsjón með öllum þáttum sem lúta að þróun og uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár og rafrænna samskipta með heilbrigðisupplýsingar. Velferðarráðherra tilkynnti landlækni þessa ákvörðun í nóvember 2011, en hún var tekin í samræmi við tillögur stýrihóps um upplýsingatækni á heilbrigðissviði. Hér er um að ræða stórt og mikilvægt verkefni og verður því sinnt á heilbrigðisupplýsingasviði ásamt öðrum verkefnum sem tengjast heilbrigðisupplýsingum og úrvinnslu þeirra. Stofnunin er sátt við að taka yfir málaflokkinn. Starfsmaður flutti frá VEL með verkefninu og ráðinn var tölvunarfræðingur. Sigríður fór yfir meginmarkmið í skipulagi og kynnti heilsuupplýsingasvið EL. Hún fór yfir forgangsverkefni EL og helstu verkefni sem eru í gangi núna
Ásgeir Böðvarsson framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga kynnti starfsemi HÞ í stuttu máli . Hann fór yfir SÖGU kerfið kosti þess og galla. SAGA er aðalskráningarkerfi allra heilbrigðisstofnana, samtenging á stóru landsvæði eykur notagildi verulega en hefur ókosti(kerfisumsjón varð hægvirkari t.d. gjaldskrárbreytingar) Langur þróunartími hefur skapað neikvæða mynd og ófyrirséða ókosti. „gamlir draugar“ vakna við hverja endurútgáfu og notendaviðmót er tregt. Lyfjakort vantar þannig að hægt sé að skrá lyf eins og kalsíum , það getur skapað hættu. SAGA-LEGA er notuð á sjúkrhúsum landsins og sjúkradeildum heilbrigðisstofnana, mikið vantar á fulla nýtingu og innleiðing var á óheppilegum tíma í upphafi hruns. Ósamræmi í beiðnum um skýrslur frá LE og VEL og hægt er að skrifa í „lotur“ annarra fagaðila/stofnana. SAGA-Askja er úrvinnslukerfi tölfræðiupplýsinga í Legu, kemur á óvart og virðist virka vel. Rafræn sending lyfseðla virkar allsstaðar þar sem SAGA/LEGA er og komið á ýmsa aðra staði sem nota önnur kerfi. 12 ár síðan fyrsti lyfseðillinn sendur en það tók 10 ár að koma seðlinum til REK. Getum við dregið lærdóma af því? RIS kerfið er rafrænt skráningarkerfi fyrir röntgenrannsóknir og aðgangur að myndbanka. Gjörbylting í upplýsingamálum varðandi aðgang að röntgenmyndum. ROS kerfið er rafrænt upplýsingakerfi fyrir rannsóknarstofur. Stórkostleg framför og sparnaður virkar ennþá sem upplýsingaveita frá stóru spítölunum til heilbr.stofnana en ekki öfugt. Rafræn tenging við SÍ er skráningarkerfi um stöðu skjólstæðings gagnvart SÍ. Framtíðin? Samantekt: Halda áfram með núverandi rafrænt kerfi. Leggja í kostnað til að endurvekja áhugann. Markvissar og fyrirfram ákveðnar skýrslur-ekki breytingar á hverju ári. Aðalmálið er að allt landið samtengist!
Þar með lauk fræðsludagskrá fyrri dags vorfundarins og við tók Óvissuferð í umsjá Stefáns Þórarinssonar um Egilsstaði, þorpið eins og heimamenn segja, í næsta nágrenni Hótels Héraðs með viðkomu hér og þar og síðan endað í móttöku í næsta húsi við hótelið. Um kvöldið var sameiginlegur kvöldverður með skemmtiatriðum heimamanna undir styrkri stjórn Einars Rafns Haraldssonar.
Föstudagsmorgunin 11.maí tók Þórunn Ólafsdóttir við fundarstjórn
Úr smiðju VEL: Anna Lilja Gunnarsdóttir sagði að unnið væri að gerð nýrrar heilbrigðisáætlunar til ársins 2015. Unnið er að velferðarstefnu til ársins 2020 í samvinnu við önnur ráðuneyti. Unnið er að endurskoðun skipurits VEL og fækkað verður um tvær skrifstofur.
Sveinn Magnússon fór yfir útgjöld Ríkissjóðs og benti sérstaklega á vaxtagjöld ríkissjóðs en þau eru 14,3%. Hann sagði ráðuneytið standa á bak við 5 sérnámsstöður lækna í heilsugæslu. Hann fór yfir kostnað sem stofnanir geta orðið fyrir í tengslum við útihátíðir og hvatti til þess að haldið sé sérstaklega utan um kostnað sem verður til vegna aukinna bakvakta o.f.l. Leyfishafar hátíða ættu að bera kostnað af heilbrigðisþjónustu. Erindið hefur verið sent til sýslumanna og innanríkisráðuneytis. Farið yfir stöðu vinnuhópa eftir úttekt BCG. 9 hópar stofnaðir, flestir búnir að skila af sér . Hópur um rafræna sjúkraskrá skilar af sér fyrir 30.maí, sjúkraflutningahópur skilar af sér í maí og einnig hópur 5 sem fjallaði um endurskipulagningu/sameiningar o.fl. Sveinn sýndi glærur varðandi hvar er skurðstofustarfsemi og varðandi fjölda fæðinga 2011. Stöðum með skurðstofustarfsemi hefur fækkað og fæðingarstöðum hefur fækkað en heimafæðingum fjölgað. Hann fór yfir stöðu sjúkraflutninga en samningar eru lausir. Unnið er að samþættingu sjúkraflutninga s.s á suðurlandi. Hann hvatti fundarmenn til að kynna sér ný staðfest lög um heilbrigðisstéttir sem taka gildi 2013. Hann talaði um lög um reykingar á heilbrigðisstofnunum,framkvæmd þeirra og hvatti til þess að hver stofnun skoðaði hvernig staðan er. Hann talaði um ráðningar læknanema, vörukynningar á stofnunum, auglýsingar í anddyrum stofnana o.fl. því tengt. Hann minnti á herbergi í húsnæði VEL sem er til afnota fyrir forstjóra og jafnvel aðra starfsmenn heilbrigðisstofnana í samráði við ráðuneytið. Hvað næst? Ráðgjafahópur ráðherra er enn að störfum, hópurinn fer yfir niðurstöður vinnuhópanna og forgangsraðar verkefnum. Trúlega verður farið að framkvæma einhverjar tillögur í haust.
Mannauður til framtíðar: Elsa Friðfinnsdóttir formaður FÍH . Hún dró saman fjölda af athyglisverðum tölum: Nú vantar 4,3 milljónir heilbrigðisstarfsmanna í heiminum, þar af 2 milljónir hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingar sinna um 50% allrar heilbrigðisþjónustu í heiminum. Meðal legutími á sjúkrahúsum hefur styst um allt að 50% frá 1980. Legurýmum á sjúkrahúsum hefur fækkað verulega á undanförnum árum. Á Landspítala voru 990 legurými árið 2002 en 659 árið 2011. Á árabilinu 1994-2009 lækkaði hlutfall þeirra íbúa á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu sem geta matast sjálfir úr 30% í 7%. Árið 2009 gátu aðeins 2% íbúa hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu klætt sig sjálfir og aðeins 13% gátu hreyft sig í rúmi. Hagstofa Íslands spáir því að árið 2050 verði hlutfall landsmanna 80 ára og eldri 7,5%. Þetta hlutfall er nú 3,1%. Fjöldi hjúkrunarfræðinga á hverja 100.000 íbúa er lægstur hér á landi af Norðurlöndunum. Fjöldi lækna er aftur á móti hæstur hér. Á næstu 10 árum munu 963 hjúkrunarfræðingar láta af störfum vegna aldurs hér á landi. Á sama árabili munu aðeins 900 hjúkrunarfræðingar bætast í hópinn. Hún ræddi um skýrslu ríkisendurskoðunar um rekstur og starfsemi hjúkrunarheimila 2008-2010, rannsóknir í hjúkrun,vísaði í gæðavísa í RAI, hjúkrunarstýrðar göngudeildir á LSH. Mikilvægi skýrrar stefnu stjórnavalda, kostnaðargreiningu og tilfærslu verkefna. Hún ítrekaði að fram þarf að fara öfgalaus umræða meðal heilbrigðisstétta um tilfærslu verkefna og hver hefur besta þekkingu og færni til að gera hvað.
Þorbjörn Jónsson formaður LÍ sagði að við hefðum átt frekar gott heilbrigðiskerfi en við getum gert betur.Hann fór yfir fjölda starfandi lækna á Íslandi. Stöðugildum lækna hjá hinu opinbera hefur fækkað eftir hrun. Starfandi læknar á Íslandi eru að eldast. Meðalaldur lækna á LSH er 55 ár. Svipað í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Læknar geta hætt að taka vaktir 55 ára. Áhyggjuefni hvernig mönnun er háttað víða á landsbyggðinni, vaktabyrði víða mikil. Færri stöður eru auglýstar og færri umsækjendur eru um hverja stöðu. Á norðurlöndum öðrum en Íslandi fækkar íbúum pr.lækni.Til að viðhalda góðu heilbrigðiskerfi þarf stöðugt nýja þekkingu og nýja reynslu í læknisfræði. Vinnuumhverfi skiptir máli og öll starfsaðstaða. Vitnaði í starfsumhverfiskönnun LSH 2010 en LSH er stærsti vinnustaður lækna á Íslandi. Skoða þarf vaktsvæði á landsbyggðinni. Hann ræddi um tilflutning verkefna með þjónustu og gæði að leiðarljósi. Hagsmunir og öryggi sjúklinga verða að ráða för.
Vorfundi var slitið kl. 12.00.
H.K