Flokkur: Vorfundir
26.06.2013 12:44
Fundargerð vorfundar 2013
Fundargerð vorfundar Landssambands heilbrigðisstofnana haldinn á Sauðárkróki 16-17. maí 2013.
Birgir Gunnarsson formaður setti fundinn bauð gesti velkomna og afhenti Jóhönnu Fjólu Jóhannsdóttur fundarstjórn.
Fyrsti liður á dagskránni var
Dagskrá á vegum velferðarráðuneytisins (13-14:30) og sá Sveinn Magnússon skrifstofustjóri í ráðuneytinu um þann lið. Hann flutti fundinum kveðjur ráðherrans og ráðuneytisstjórans. Sveinn ræddi um að mögulegar breytingar gætu verið á döfinni hvað varðar sameinað ráðuneyti, en ýmsar getgátur eru uppi í því sambandi að ráðuneytin verði á ný tvö, ráðuneyti heilbrigðismála og ráðuneyti félags og húsnæðismála. Ekkert liggur þó enn fyrir hvernig málum verður háttað, en embættismenn velferðarráðuneytisins eru að búa sig undir að taka á móti tveimur velferðarráðherrum. Sveinn fór yfir skipurit ráðuneytisins sem er frá 1. júlí 2012 og möguleika á skiptingu málaflokka milli tveggja ráðherra. Hann nefndi skiptingu útgjalda ríkissjóðs og sagði hlut velferðarmála vera 46% af útgjöldum ríkissjóðs en skiptingin er 24% heilbrigðismál og 22% önnur velferðarmál. Hann lagði áherslu á að stofnanir haldi sig innan ramma fjárlaga, en aftók ekki að um einhvern niðurskurð til heilbrigðismála yrði að ræða í komandi fjárlagagerð.
Hann sagði frá CAF-sjálfsmatslíkani sem er aðferð sem nýst hefur stofnunum við að ná bættum árangi í stjórnun og rekstri en innleiðing á þessu líkani hefur staðið yfir hjá velferðarráðuneytinu. Ráðuneytið kom vel út úr þessu mati og góð reynsla er af því að opinberar stofnanir geri innra sjálfsmat. Upplýsingar varðandi CAF- sjálfsmatslíkanið liggja fyrir á vef ráðuneytisins og einnig má hafa samband við Fjólu eða Önnu Lilju ef áhugi er fyrir að nálgast matið. Ráðgert er að stofnunum verði boðið upp á CAF- matið og mun bréf berast þar að lútandi fljótlega. Stofnunum er bent á að kynna sér matið vel en það er ákvörðun viðkomandi stofnunar hvort hún nýti sér matið.
Næst nefndi Sveinn nýbirtar
hagvaxtartillögur verkefnastjórnar samráðsvettvangs um aukna hagsæld.
Að umræðunni hafa komið margir aðilar m.a. frá ráðuneytum, einkageiranum og ríkisstofnunum. Í tillögum verkefnastjórnarinnar kemur fram m.a. að opinber þjónusta stendur undir um 20% af framleiðslu hagkerfisins og um 30% af heildarfjölda starfa (167.000) hagkerfisins.
Aukin framleiðni innan hins opinbera (þarf að bæta rekstur hins opinbera um 5% VRL) er besta leiðin til að ná jafnvægi í hagkerfinu (ríkifjármálum).
Verkefnastjórnin leggur fram 8 tillögur til að ná settu markmiði um aukna framleiðni, sem dæmi má nefna að varðandi skipulag eru tillögurnar
1. Sameining stofnana, fækka löggæslustofnunum úr 17 í eina, heilbrigðisstofnunum úr 16 í 7.
2. Efling sveitarstjórnarstigsins,
sjá nánar um tillögurnar á http:// samradsvettvangur.is (fundur 3) .
Sveinn gaf síðan færi á nokkrum spurningum. Spurningar: 1. Er Sveinn sjálfur sáttur við sameiningu ráðuneyta og jafnlaunastefnu ríkisstjórnarinnar. Svar: Hann sagðist að mörgu leyti sáttur við sameiningu málaflokkanna sem er í samræmi við fyrirkomulagið í nágrannalöndum, en segir jafnframt að mjög mikið álag sé þegar taka á mál fyrir í þinginu. Jafnlaunastefnan er ekki á hans borði. 2. Hvaða áhrif hafa tíð ráðherraskipti, eins og í fyrirtæki þá eru ráðherrar stjórnendur þó tímabundið sé. Svar: Tíð skipti stjórnenda í fyrirtæki hefur oftast ekki góð áhrif á fyrirtækið en þetta er lýðræði í hnotskurn. 3. Verr og verr gengur að manna sjúkraflutninga út um landið, hvað er til ráða. Svar: Svæðin þurfa að skipuleggja sig sem best sjálf og vera sem sjálfbærust í þessu málaflokki. Ekki er fyrirhuguð breyting hvað þetta varðar á næstunni.
Gæðavísar í heilbrigðisþjónustunni (15-17)
Notkun gæðavísa í heilbrigðisþjónustu
Laura Sch. Torsteinsson, verkefnastjóri á sviði eftirlits og gæða hjá Embætti landlæknis tók fyrst til máls og lagði áherslu á að heilbrigðisyfirvöld velji og birti gæðavísa sem lýsi faglegum gæðum, gæðum í uppbyggingu þjónustu og gæðum frá sjónarhóli notenda þjónustunnar. Velja þarf réttu gæðavísana og við val þeirra verði lögð áhersla á að þeir uppfylli vísindalegar og fræðilegar kröfur. Gæði og öryggi haldast í hendur. Gæðavísa má nýta til að meta hvort gæði þjónustu séu í samræmi við viðurkennda faglega staðla og viðmið. Mikilvægt er að hafa handbæra áreiðanlega og réttmæta gæðavísa og sýna þarf aðgæslu við val, notkun og túlkun þeirra. Gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu er sameiginleg ábyrgð stjórnvalda, heilbrigðistofnana, stjórnenda, starfsfólks og notenda og brýnt að leita allra leiða til að efla gæði og auka öryggi þjónustunnar. Laura nefndi að hægt er að efla gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar með margvíslegum móti og benti í því sambandi á Leiðbeiningar Fagráðs Embættis Landlæknis um sjúklingaöryggi frá 2012 ¨Eflum gæði og öryggi í íslenskri heilbrigðisþjónustu¨ Markmið, framkvæmd, eftirlit (http/www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item19084/Eflum%20gæði%20og%20öryggi%20210113.pdf).
Þróun gæðavísa á Landspítala.
Elísabet Guðmundsdóttir, verkefnastjóri starfsemisupplýsinga á hagdeild LSH.
Elísabet fór yfir starfssemistölur spítalans m.t.t. ákveðinna markmiða og gæðavísa (sjá spítalinn í tölum, htt/www.lsh.is) og dreifði bæklingi um starfsáætlun spítalans fyrir árið 2012-2013.
Markmiðið að sögn Elísabetar er ¨Öruggur spítali¨ (Harmfree care).
Áherslan er á 5 meginn þætti:
Ánægju sjúklinga, gerð þjónustukönnun í maí og nóvember 2012.
Bráðar endurinnlagnir innan 30 daga (gæðavísir eða ekki?).
Gæðavísar sérgreina.
Árangursvísar Landspítala 2012
Lykilverkefni 2012-2013.
Hún fór yfir niðurstöður þjónustukönnunar í maí og nóvember og var meðalskor í báðum könnunum 9 af 10. Varðandi bráðar endurinnlagnir eru viðmið erlendis frá að allt að 20% sjúklinga leggjast inn aftur innan 30 daga frá útskrift en hlutfall bráðra endurinnlagna á LSH er um 12% (2010-2012). Gæðavísar sérgreina, margar sérgreinar á spítalanum eru að vinna að sínum eigin gæðavísum í samvinnu t.d. við kollega í nágrannalöndunum og fór hún yfir nokkur dæmi þar að lútandi. Hún sýndi skorkort LSH Öruggur spítali árið 2012 og fór yfir árangursvísa þar sem fram komu rauntölur og markmið fyrir árið. Hún nefndi dæmi um atvikaskráningu bæði sjúklinga og starfsmanna. Lykilverkefni LSH 2012-2013. Þar voru sett skýr markmið varðandi öryggi sjúklinga. Dæmi, að handþvottur verði 100%, daglegir öryggisfundir, öll atvik verði skráð, ofl..
Þróun gæðavísa á FSA.
Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar og framkvæmdastjóri bráða-, fræðslu- og gæðasviðs á FSA.
Nýbúið er að leggja fram nýja starfsáætlun spítalans fyrir 2013-2014. Gæðavísar á FSA eru notaðir til að meta gæði og árangur í þjónustu spítalans. Hún fór yfir starfsemistölur spítalans með tilliti til markmiða, mælinga og skilgreindra gæðavísa. Hún nefndi m.a. starfsmannasamtöl sem gæðavísi sem þau telja sig þurfa að efla og bæta. Hún spurði er mönnun (fjöldi starfsmanna) gæðavísir? Fjöldi starfsmanna og samsetning mönnunar hefur tvímælalaust áhrif á gæði og öryggi þjónustunnar. FSA stefnir að því að vera alþjóðavottað sjúkrahús árið 2017. Það kostar mikla vinnu og fjármagn að ná því markmiði.
17:30- 19:00 var óvissuferð með hressingu. Tókst hún með eindæmum vel en farið var með rútu í Sútunarverksmiðjuna á Sauðárkrók. Þar tók fulltrúi verksmiðjunar á móti hópnum í Gestastofu sútarans, þar var boðið upp á hressingu. Hópurinn var síðan leiddur í gegnum verksmiðjuna með tilheyrandi fræðslu og fróðleik.
Kl. 20:00 var boðið til kvöldverðar á Kaffi Krók. Maturinn góður, söngatriðið betra og félagsskapurinn bestur.
Seinni dagur vorfundarins hófst með dagskrá á vegum Norðlendinga (09-12).
Bráðaþjónusta og sjúkraflutningar í dreifbýli.
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sá um þennan lið, framsögu hafði Ásgeir Böðvarsson framkvæmdastjóri lækninga, en ásamt honum unnu Áslaug Halldórsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar og Jón Helgi Björnsson forstöðumaður erindið.
Vaktþjónustu hefur verið breytt í þá veru að neyðarflutningsmaður er alltaf á vakt á Húsavík, hann er t.d. kallaður til við endurlífgun á sjúkrahúsinu.
Umdæmið er stórt um 5000 manns og mikið um útköll. Vinnufyrirkomulagið er teymisvinna lækna og hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingar taka öll símtöl og sjá um fyrsta viðtal við sjúklinginn. Fyrirkomulagið reynist ágætlega og sjúklingar eru ánægðir.
Sjúkraflutningar eru hluti af rekstri HÞ og eru um 60-70 flutningar á ári í Norður-Þingi en 250-300 sjúkraflutningar í S-Þingi. Fjöldi útkalla er mestur í júlí-ágúst. Reynst hefur vel að mennta heimafólk til neyðarflutninga og er mikill metnaður að sinna bráðþjónustu vel . Fjöldi manns bíður eftir að komast í þjálfun.
Sérfræðiþjónusta í heimabyggð.
Örn Ragnarsson heilsugæslulæknir Heilbrigðistofnunarinnar á Sauðárkróki.
Fæðingarstöðum fækkar og búast má við aukinni sérhæfingu í kjölfarið. 2010 voru 483 fæðingar á svæðinu þar af voru 86 heimafæðingar. Mikil breyting hefur orðið á sérfræðiþjónustu s.l. 30 ár þá voru um 180 skurðstofur á heilbrigðisstofnunum víða um landið sem tóku mikið rými. Síðasti skurðlæknirinn hætti ´99, en ´97 var samið við farandskurðlækna um að leysa hann af og þegar hann hætti störfum þá tóku þeir við. Í dag koma sérfræðingar frá 1-2 í mánuði til 2x á ári og eru í 1-4 daga í senn. Þjónustan liggur niðri yfir sumartímann. Engar aðgerðir eru gerðar lengur en nokkuð um speglanir. Eins koma aðrir sérfræðingar flestir frá FSA. Kostnaður er mismunandi eftir því hvort HS greiðir sérfræðingum sem koma á staðinn en kostnaður árið 2009 var 3 milljónir eða hvort sjúklingurinn er sendur á FSA kostnaður 2009 var 3, 6 milljónir. Mikil ánægja er með fyrirkomulagið og samvinnuna við sérfræðing FSA. Sjúklingar eru ánægðir, starfsfólkið ánægt og sérfræðingarnir ánægðir og telja fyrirkomulagið efla þjónustu FSA . Þjónustan er sem stendur í uppnámi vegna niðurskurðar og óvíst um framhaldið.
Staðan í heilsugæslunni.
Margrét Guðjónsdóttir framkvæmdarstjóri hjúkrunar og rekstrarstjóri HAK.
Margrét fór yfir sögulegt yfirlit HAK og nefndi m.a. að starfsemin hófst 1985 en 1997 tekur Akureyrarbær við rekstrinum og þá er gerður þjónustusamningur við ráðuneytið um rekstur stöðvarinnar. Samstarfið hefur gengið mjög vel og mörg sóknarfæri í samvinnu heilbrigðis- félags- og skólasviðs. Akureyrarbær hefur staðið þétt við bakið á heilsugæslunni. Nú er þó svo komið að 6000 íbúar hafa ekki heimilislækni og mjög erfiðlega gengur að fá lækna til starfa. Hjúkrunar- og ljósmæðraþjónustan hefur lítið sem ekkert svigrúm og heimahjúkrun eykst stöðugt vegna fækkunar vistrýma
Efla þarf heilsugæsluna en orð duga skammt, auka þarf fjármagn og mannafla til að það sé fram- kvæmanlegt.
Hvaða leiðir eru færar fyrir heilbrigðisstofnanir á norðurslóðum til þess að ráða og/eða halda í hæft starfsfólk? Hildigunnur Svavarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á FSA.
Skortur á heilbrigðisstarfsfólki í dreifbýli er alþjóðlegt vandamál og Ísland er dreifbýlt land. Tryggja þarf faglega þróun og koma í veg fyrir einangrun. Hildigunnur kynnti samvinnuverkefni sem Ísland er aðili að og nefnist Northern Periphery Programme ¨Recruit and retain¨og er styrkt af Evrópuráðinu og hefur verið í framkvæmd frá árinu 2011. Verkefnið er fólgið í því að leita lausna í viðvarandi erfiðleikum sem felast m.a. í því að ráða og halda í gott heilbrigðisstarfsfólk í dreifbýli á Norðurslóðum. Hún kynnti jafnframt niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var í tengslum við verkefnið. Heilbrigðisyfirvöld þurfa að styðja og efla stuðning við þá heilbrigðisstarfsmenn sem vilja starfa í dreifbýli svo þeir haldist í starfi. Ef menn vilja kynna sér verkefnið nánar er slóðinwww.recruitandretain.eu.
Kynning á rafrænu bókunarkerfi HSB. Sveinfríður Sigurpálsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Blönduóss.
Búið er að setja upp rafrænt tímabókunarkerfi fyrir heilsugæsluna. Markmiðið er að bæta þjónustu við notendur við bókun tíma. Verkefnið er unnið í samvinnu við fyrirtækið Heilsuvernd.is sem heldur úti síðunni doktor.is. Hægt er að fara inn í kerfið hvenær sem er og þá kemur fram hvaða tímar eru lausir.
Í dag eru 30% tímabókana hjá HBS rafrænar. Verið er að skoða möguleika á að tengjast snjallsímaforriti Símans. Nánari upplýsingar um rafrænu bókunina er að finna á heimasíðu Hsb.is og þar er tengill inn á doktor.is.
Kynning á fyrirtækinu Iceprótein.
Hólmfríður Sveinsdóttir forstöðumaður. Fyrirtækið er í eigu Fisk-Seafood í dag. Starfsemin er að mestu fólgin í ráðgjöf varðandi matvælaþróun og framleiðslu á fiskpróteinum. Starfsemin er rekin í Verinu sem sinnir menntun, rannsóknum og nýsköpun að stærstum hluta. Verið er vísindagarður, þyrping þekkingarfyrirtækja og rannsóknarstofnana í háskólaumhverfi. Verið er vettvangur samstarfs menntunar, rannsókna og leiðir saman opinbera aðila mennta, rannsókna og fyrirtækja. Annast fyrst og fremst kennslu og rannsóknir. Eigendur Versins eru sveitarfélagið auk annarra aðila. 8 aðilar eru með aðstöðu í verinu og er Iceprótein eitt þeirra (http://www.veridehf.is).
Helstu verkefnin eru fiskeldisrannsóknir, rannsóknir og þróun fiska, hegðun fiska, þjónusta og ráðgjöf/framleiðsla og matvælarannsóknir á vegum Matís en Matís er eitt af þeim fyrirtækjum sem staðsett eru í Verinu á Sauðárkrók auk þessa að vera með starfsemi í Reykjavík. Rannsóknir í Verinu snúast mikið um að fullnýta hráefnið, sérstaklega lífvirk lífefni í sjárvarfangi. Þó íbúar í Skagafirði séu aðeins 1,3% af heildaríbúafjölda landsins þá er þar framleitt mjög mikill fjöldi og magn matvæla.
Önnur mál
Engin mál voru tekin fyrir undir þessum lið.
Fundarlok voru um kl. 12 og þakkaði formaður fundarmönnum fundarsetuna og óskaði þeim góðrar heimferðar
15.05.2012 09:27
Vorfundur 2012
Vorfundur Landssambands heilbrigðisstofnana haldinn á Hótel Héraði Egilsstöðum 10.-11.maí 2012
Fundurinn hófst kl. 13.00 með setningu formanns Birgis Gunnarssonar . Fól hann Jóni Hilmari Friðrikssyni fundarstjórn og Herdísi Klausen fundarritun.
Austurland sterkara saman; Einar Rafn Haraldsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) fór yfir svæði heilsugæsluumdæmis HSA og lýsti staðháttum. Svæðið er um 15.000 km2 og íbúafjöldi um 10.310 manns. HSA varð til við sameiningu allra heilbrigðisstofnana á Austurlandi 1999. Svæðið getur verið erfitt yfirferðar, snjóþungt og víða getur orðið mikil veðurhæð. Einar fór yfir vegalengdir milli staða og ferðatíma. Rekstur HSA hefur verið á niðurleið, stöðugildum hefur fækkað, tekjur og útgjöld hafa lækkað. Á árinu hefst bygging nýs 40 rúma hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum. Ef að "við" er heilbrigðiskerfið. Erum "við" á réttri leið? Hvert erum "við" að fara? Einar kallar eftir nýrri heilbrigðisstefnu og hvetur til uppbyggingar í stað niðurskurðar. Hann telur mjög mikilvægt að tengja saman sjúkraskrár landshlutanna við LSH og SA og að sérfræðingar skráii í sameiginlega skrá. Hann vill að peningum sé úthlutað á heilbrigðissvæðin svo þau geti keypt sérfræðiþjónustu inn á svæðin. Auka þarf heilbrigðisuppeldi landsmanna og gera þarf Ísland fýsilegra fyrir unga lækna. Magnús Þ.Ásmundsson forstjóri Alcoa á Íslandi fór yfir sögu Alcoa Fjarðaáls. Sjúkrahús með bráðamóttöku var ein af forsendum staðarvals. Engin slys urðu á byggingatíma álversins. Í dag eru 336 ker í álverinu og umtalsverð sjálfvirkni. Um fjórðungur framleiðslunnar er fullunnir álvírar. Útflutningshöfn er Mjóeyrarhöfn sem er ein stærsta útflutningshöfn landsins. Um 700 manns starfa á álverssvæðinu. Markmið Alcoa er að vera besta fyrirtæki í heiminum, í augum viðskiptavina, starfsmanna, hluthafa, almennings og þeirra samfélaga sem að Alcoa starfar í. Fjarðaál þarf að laða til sin hæft starfsfólk og halda því. 50% af vinnuafli er aðflutt. Gerð er krafa um að allir tali íslensku. Góð heilbrigðisþjónusta er ein af grunnforsendum þess að fólk setjist að í samfélagi. Neikvæð umræða um heilbrigðisþjónustu á atvinnusvæði s.s. niðurskurður hefur vond áhrif. Öryggismál eru ofarlega á forgangslista hjá Fjarðaáli og allir starfsmenn fá ítarlega fræðslu í þeim efnum. Mikil áhersla er lögð á að vinnustaðurinn sé eins öruggur og kostur er. Starfsfólkinu á að líða vel í vinnunni og markmiðið er að engin vinnuslys verði hjá fyrirtækinu. Fjarðaál gætir einnig vel að almennri heilsu starfsmanna og þeim stendur til boða víðtæk velferðarþjónusta. Hún felur meðal annars í sér að starfsfólk hefur aðgang að þjónustu lækna, hjúkrunarfólks, sálfræðinga, lögfræðinga og ýmissa annarra sérfræðinga sér að kostnaðarlausu ef þeir þurfa á slíkri þjónustu að halda. Í heilsusetri álversins er jafnframt unnið að öflugum forvörnum. Fullkomin heilsugæsla er á staðnum og þar starfa tveir hjúkrunarfræðingar í fullu starfi. Önnur heilbrigðisþjónusta er keypt af HSA. Álverið kemur að rekstri slökkviliðs og sjúkraflutninga á svæðinu og aðstoðar önnur fyrirtæki í öryggismálum. Breytt sýn hefur orðið á öryggismenningu á svæðinu með tilkomu álversins. Sjálfbærniverkefni Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar, sem ráðist var í í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og Fjarðaáls, hefur vakið athygli víða um heim. Efnt var til víðtæks samráðs með hagsmunaaðilum til að ákveða hvaða þætti í umhverfi, efnahagslífi og samfélagi bæri að vakta til að fylgjast með áhrifum uppbyggingarinnar, jákvæðum sem neikvæðum. Haldið er úti vefsíðu þar sem fylgjast má með niðurstöðum úr vöktuninni. www.sjalfbaerni.is Alcoa veitir styrki til ýmissa samfélagsverkefna. Stefanía G. Kristinsdóttir verkefnastjóri kynnti verkefnið "Austurbrú" . Stofnfundur Austurbrúar ses var haldinn 8.maí s.l. á Reyðarfirði.Yfir 30 stofnaðilar eru að Austurbrú, þar á meðal eru öll sveitarfélögin á Austurlandi, allir háskólar landsins, helstu fagstofnanir, stéttarfélög og hagsmunasamtök atvinnulífsins, framhaldsskólar og þekkingarsetur á Austurlandi. Stefanía fór yfir forsögu verkefnisins en hún var verkefnastjóri. Undirbúningur sameiningunni hefur átti sér stað í tveimur áföngum. Fyrri áfanga lauk með skýrslu vinnuhóps Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) "Endurskoðun á stoðkerfi atvinnulífs, menntunar og menningar á Austurlandi", seinni áfanginn hófst haustið 2011 með skipan verkefnisstjórnar sem vann að sameiningunni. Á stofnfundinum var kosið í stjórn og fagráð fyrir hina nýju stofnun, undirritaðir samningar við ríkisvaldið og fleiri aðila. Heimasíða er . www.austur.is
Rafræn sjúkraskrá-staða mála og framhald. Björn Jónsson deildarstjóri á heilbrigðis- og upplýsingatæknisviði LSH kynnti stöðu mála á LSH en þar er kerfið í endurskoðun. Rafræn sjúkraskrá LSH = öll kerfi sem snúa að klínískri starfsemi spítalans. Tæknilegur stuðningur við fagfólk mikilvægur, ýmsar nýjungar á döfinni s.s spjaldtölvur o.fl. Öll ný lækningatæki skila gögnum inn í rafræna sjúkraskrá.Nauðsynlegt er að vinna að samtengingu sjúkraskrárgrunna og sameiginlegum lyfjagrunni. Björn benti á Ljórann (www.ljorinn.is ) sem er fjaraðgangur að klínískum kerfum LSH og hægt að gera samning um notkun á. Gagnlegt fyrir sjálfstætt starfandi sérfræðinga og heilbrigðisstofnanir. Björn ræddi um samnýtingu rannsóknarstofukerfa og myndgreiningarkerfa, margþætta hagræðingu og verulegan fjárhagslegan sparnað. LSH hefur þegar gert samning við nokkrar stofnanir. LSH getur einnig nálgast gögn frá öðrum stofnunum gegnum heilsugátt en sú vinna er í þróun. Varðandi framtíðina: þá eru tvær leiðir. A: kaupa nýtt heildarkerfi, B: Halda áfram að þróa núverandi kerfi og tengja saman stofnanir. Flestir sammála að A verði lokaniðurstaðan en það er dýrt og tímafrekt. Mikill vilji að fara leið A sem allra fyrst. Vinnuhópur á vegum VEL fjallar um málið og skilar af sér fyrir 30.júní. Björn fór yfir helstu markmið sem ætlað er að ná með samtengdri sjúkraskrá, tillögur um innleiðingu á samrekinni og samtengdri skrá á landsvísu og skjal sem sent verður til erlendra birgja vegna nýrrar sjúkraskrár. Eftir 30.júní verður sumarið notað til að melta innihald skýrslunnar og næstu skref ákveðin. Í september verður afstaða tekin til skýrslunnar og tekin ákvörðun hvort ráðist verður í verkefnið auk þess að tryggja fjármagn. Um áramót gæti verkefnið verið komið á fullt. Samhliða þarf að vinna fjölmörg verkefni, s.s. reglugerðarbreytingar o.fl. Kaup og innleiðing á sjúkraskrárkerfi á landsvísu er flókið verkefni. Stefnan er sett á eitt heildarkerfi sem tekur á flestum þáttum og nýtist öllum. Sigríður Haraldsdóttir sviðstjóri í heilbrigðisupplýsingum hjá Landlæknisembættinu sagði frá því að embætti landlæknis var þann 1. mars síðastliðinn falin ábyrgð á og yfirumsjón með öllum þáttum sem lúta að þróun og uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár og rafrænna samskipta með heilbrigðisupplýsingar. Velferðarráðherra tilkynnti landlækni þessa ákvörðun í nóvember 2011, en hún var tekin í samræmi við tillögur stýrihóps um upplýsingatækni á heilbrigðissviði. Hér er um að ræða stórt og mikilvægt verkefni og verður því sinnt á heilbrigðisupplýsingasviði ásamt öðrum verkefnum sem tengjast heilbrigðisupplýsingum og úrvinnslu þeirra. Stofnunin er sátt við að taka yfir málaflokkinn. Starfsmaður flutti frá VEL með verkefninu og ráðinn var tölvunarfræðingur. Sigríður fór yfir meginmarkmið í skipulagi og kynnti heilsuupplýsingasvið EL. Hún fór yfir forgangsverkefni EL og helstu verkefni sem eru í gangi núna. Ásgeir Böðvarsson framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga kynnti starfsemi HÞ í stuttu máli . Hann fór yfir SÖGU kerfið kosti þess og galla. SAGA er aðalskráningarkerfi allra heilbrigðisstofnana, samtenging á stóru landsvæði eykur notagildi verulega en hefur ókosti(kerfisumsjón varð hægvirkari t.d. gjaldskrárbreytingar) Langur þróunartími hefur skapað neikvæða mynd og ófyrirséða ókosti. "gamlir draugar" vakna við hverja endurútgáfu og notendaviðmót er tregt. Lyfjakort vantar þannig að hægt sé að skrá lyf eins og kalsíum , það getur skapað hættu. SAGA-LEGA er notuð á sjúkrhúsum landsins og sjúkradeildum heilbrigðisstofnana, mikið vantar á fulla nýtingu og innleiðing var á óheppilegum tíma í upphafi hruns. Ósamræmi í beiðnum um skýrslur frá LE og VEL og hægt er að skrifa í "lotur" annarra fagaðila/stofnana. SAGA-Askja er úrvinnslukerfi tölfræðiupplýsinga í Legu, kemur á óvart og virðist virka vel. Rafræn sending lyfseðla virkar allsstaðar þar sem SAGA/LEGA er og komið á ýmsa aðra staði sem nota önnur kerfi. 12 ár síðan fyrsti lyfseðillinn sendur en það tók 10 ár að koma seðlinum til REK. Getum við dregið lærdóma af því? RIS kerfið er rafrænt skráningarkerfi fyrir röntgenrannsóknir og aðgangur að myndbanka. Gjörbylting í upplýsingamálum varðandi aðgang að röntgenmyndum. ROS kerfið er rafrænt upplýsingakerfi fyrir rannsóknarstofur. Stórkostleg framför og sparnaður virkar ennþá sem upplýsingaveita frá stóru spítölunum til heilbr.stofnana en ekki öfugt. Rafræn tenging við SÍ er skráningarkerfi um stöðu skjólstæðings gagnvart SÍ. Framtíðin? Samantekt: Halda áfram með núverandi rafrænt kerfi. Leggja í kostnað til að endurvekja áhugann. Markvissar og fyrirfram ákveðnar skýrslur-ekki breytingar á hverju ári. Aðalmálið er að allt landið samtengist!
Þar með lauk fræðsludagskrá fyrri dags vorfundarins og við tók Óvissuferð í umsjá Stefáns Þórarinssonar um Egilsstaði, þorpið eins og heimamenn segja, í næsta nágrenni Hótels Héraðs með viðkomu hér og þar og síðan endað í móttöku í næsta húsi við hótelið. Um kvöldið var sameiginlegur kvöldverður með skemmtiatriðum heimamanna undir styrkri stjórn Einars Rafns Haraldssonar.
Föstudagsmorgunin 11.maí tók Þórunn Ólafsdóttir við fundarstjórn
Úr smiðju VEL: Anna Lilja Gunnarsdóttir sagði að unnið væri að gerð nýrrar heilbrigðisáætlunar til ársins 2015. Unnið er að velferðarstefnu til ársins 2020 í samvinnu við önnur ráðuneyti. Unnið er að endurskoðun skipurits VEL og fækkað verður um tvær skrifstofur. Sveinn Magnússon fór yfir útgjöld Ríkissjóðs og benti sérstaklega á vaxtagjöld ríkissjóðs en þau eru 14,3%. Hann sagði ráðuneytið standa á bak við 5 sérnámsstöður lækna í heilsugæslu. Hann fór yfir kostnað sem stofnanir geta orðið fyrir í tengslum við útihátíðir og hvatti til þess að haldið sé sérstaklega utan um kostnað sem verður til vegna aukinna bakvakta o.f.l. Leyfishafar hátíða ættu að bera kostnað af heilbrigðisþjónustu. Erindið hefur verið sent til sýslumanna og innanríkisráðuneytis. Farið yfir stöðu vinnuhópa eftir úttekt BCG. 9 hópar stofnaðir, flestir búnir að skila af sér . Hópur um rafræna sjúkraskrá skilar af sér fyrir 30.maí, sjúkraflutningahópur skilar af sér í maí og einnig hópur 5 sem fjallaði um endurskipulagningu/sameiningar o.fl. Sveinn sýndi glærur varðandi hvar er skurðstofustarfsemi og varðandi fjölda fæðinga 2011. Stöðum með skurðstofustarfsemi hefur fækkað og fæðingarstöðum hefur fækkað en heimafæðingum fjölgað. Hann fór yfir stöðu sjúkraflutninga en samningar eru lausir. Unnið er að samþættingu sjúkraflutninga s.s á suðurlandi. Hann hvatti fundarmenn til að kynna sér ný staðfest lög um heilbrigðisstéttir sem taka gildi 2013. Hann talaði um lög um reykingar á heilbrigðisstofnunum,framkvæmd þeirra og hvatti til þess að hver stofnun skoðaði hvernig staðan er. Hann talaði um ráðningar læknanema, vörukynningar á stofnunum, auglýsingar í anddyrum stofnana o.fl. því tengt. Hann minnti á herbergi í húsnæði VEL sem er til afnota fyrir forstjóra og jafnvel aðra starfsmenn heilbrigðisstofnana í samráði við ráðuneytið. Hvað næst? Ráðgjafahópur ráðherra er enn að störfum, hópurinn fer yfir niðurstöður vinnuhópanna og forgangsraðar verkefnum. Trúlega verður farið að framkvæma einhverjar tillögur í haust.
Mannauður til framtíðar: Elsa Friðfinnsdóttir formaður FÍH . Hún dró saman fjölda af athyglisverðum tölum: Nú vantar 4,3 milljónir heilbrigðisstarfsmanna í heiminum, þar af 2 milljónir hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingar sinna um 50% allrar heilbrigðisþjónustu í heiminum. Meðal legutími á sjúkrahúsum hefur styst um allt að 50% frá 1980. Legurýmum á sjúkrahúsum hefur fækkað verulega á undanförnum árum. Á Landspítala voru 990 legurými árið 2002 en 659 árið 2011. Á árabilinu 1994-2009 lækkaði hlutfall þeirra íbúa á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu sem geta matast sjálfir úr 30% í 7%. Árið 2009 gátu aðeins 2% íbúa hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu klætt sig sjálfir og aðeins 13% gátu hreyft sig í rúmi. Hagstofa Íslands spáir því að árið 2050 verði hlutfall landsmanna 80 ára og eldri 7,5%. Þetta hlutfall er nú 3,1%. Fjöldi hjúkrunarfræðinga á hverja 100.000 íbúa er lægstur hér á landi af Norðurlöndunum. Fjöldi lækna er aftur á móti hæstur hér. Á næstu 10 árum munu 963 hjúkrunarfræðingar láta af störfum vegna aldurs hér á landi. Á sama árabili munu aðeins 900 hjúkrunarfræðingar bætast í hópinn. Hún ræddi um skýrslu ríkisendurskoðunar um rekstur og starfsemi hjúkrunarheimila 2008-2010, rannsóknir í hjúkrun,vísaði í gæðavísa í RAI, hjúkrunarstýrðar göngudeildir á LSH. Mikilvægi skýrrar stefnu stjórnavalda, kostnaðargreiningu og tilfærslu verkefna. Hún ítrekaði að fram þarf að fara öfgalaus umræða meðal heilbrigðisstétta um tilfærslu verkefna og hver hefur besta þekkingu og færni til að gera hvað. Þorbjörn Jónsson formaður LÍ sagði að við hefðum átt frekar gott heilbrigðiskerfi en við getum gert betur.Hann fór yfir fjölda starfandi lækna á Íslandi. Stöðugildum lækna hjá hinu opinbera hefur fækkað eftir hrun. Starfandi læknar á Íslandi eru að eldast. Meðalaldur lækna á LSH er 55 ár. Svipað í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Læknar geta hætt að taka vaktir 55 ára. Áhyggjuefni hvernig mönnun er háttað víða á landsbyggðinni, vaktabyrði víða mikil. Færri stöður eru auglýstar og færri umsækjendur eru um hverja stöðu. Á norðurlöndum öðrum en Íslandi fækkar íbúum pr.lækni.Til að viðhalda góðu heilbrigðiskerfi þarf stöðugt nýja þekkingu og nýja reynslu í læknisfræði. Vinnuumhverfi skiptir máli og öll starfsaðstaða. Vitnaði í starfsumhverfiskönnun LSH 2010 en LSH er stærsti vinnustaður lækna á Íslandi. Skoða þarf vaktsvæði á landsbyggðinni. Hann ræddi um tilflutning verkefna með þjónustu og gæði að leiðarljósi. Hagsmunir og öryggi sjúklinga verða að ráða för.
Vorfundi var slitið kl. 12.00.
H.K
11.03.2012 13:23
Vorfundur 2012
Vorfundur Landssambands heilbrigðisstofnana
Fundurinn verður haldinn á Hótel Héraði á Egilsstöðum dagana 10-11 maí n.k. Áformað er að hefja dagskrá kl. 13 fimmtudaginn 10 maí og verður sá dagur skipulagður í samráði við Velferðarráðuneyti. Dagskrá föstudagsins verður á vegum LH og áætluð fundarlok um hádegið þann dag. Tekin hafa verið frá öll herbergi hótelsins en hver og ein stofnun verður að panta gistingu. Verð á eins manns herbergi er kr. 14.700 og á tveggja manna herbergi kr. 17.600. Gisting er pöntuð í síma 471-1500 fyrir 20. mars. Nánari upplýsingar um dagskrá o.fl. verða sendar síðar.
Kveðja
Birgir Gunnarsson formaður LH
08.06.2011 15:38
Vorfundur 2011 fundargerð
Vorfundur Landsambands heilbrigðisstofnana haldinn á Hótel Selfossi 12.-13. maí 2011.
Horft til framtíðar.
Fundargerð.
Fyrir fundinn hittist stjórn LH og undirritaði umboð fyrir Magnús gjaldkera vegna stofnunar reikninga í nafni samtakana auk þess að ræða dagskrá vorráðstefnunnar og yfirfara undirbúning hennar. Þátttaka stefndi í að verða góð með 53 skráða.
Stjórnarfundinn sátu Birgir, Erna, Magnús, Margrét, Þröstur og Stefán. Þórunn boðaði forföll.
Vorfundurinn hófst klukkan 13 með setningu formanns, Birgis Gunnarssonar. Fól hann Ernu Einarsdóttur fundarstjórn og skipaði Stefán Þórarinsson fundarritara.
Velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson var fyrstur á dagskrá með ítarlegu ávarpi undir fyrirskriftinni
Heilbrigðisþjónusta í nútíð og framtíð.
Ráðherra fjallaði um stöðu mála í dag í ítarlegu erindi, þau atriði sem helst snúa að Velferðarráðuneytinu og stefnu þess til framtíðar ásamt þeim áskorunum sem blasa við. Ráðherra hvað víðtæka sátt meðal allra stjórnmálaflokka um þau markmið að tryggja heilbrigðisþjónustuna og sterkt almannatryggingakerfi jafnframt því að tryggja húsnæðisöryggi fólks en einnig um þá skoðun að vernda beri sérstaklega hag og stöðu barna, barnafjölskyldna og þeirra sem lakast standa.
Áherslur velferðarráðuneytisins eru á heildstæða heilbrigðisþjónustu, að heilsugæslan verði í öndvegi, að heilbrigðisþjónustan verði veitt á viðeigandi þjónustustigi óháð búsetu og efnahag sbr. lög um heilbrigðisþjónustu. Ráðuneytið vill stuðla að samþættingu heimaþjónustu og heimahjúkrunar, að öflugri nærþjónustu með flutningi verkefna til sveitarfélaga þar sem viðmót við neytendur verði í öndvegi. Einnig leggur það áherslu á forvarnir og lýðheilsustarf og nýskipan örorku- og endurhæfingarmála.
Fram kom hjá ráðherra að flutningur málefna aldraðra sem ráðgerður var á næsta ári verði í fyrsta lagi árið 2013. Það þurfi að gefa sér tíma í þetta verkefni því á minni stöðum geti þurft að velja hvoru megin heilbrigðisþjónustan eigi að lenda, hjá sveitarfélögunum eða heilbrigðisstofnunum sem fái þá útvíkkað verksvið.
Mörg verkefni eru í vinnslu í hinu nýja ráðuneyti þar sem nú koma saman málefni tveggja stórra ráðuneyta. Skapa þarf sameiginlega sýn fyrir ráðuneytið og þróa nýtt verklag við úrvinnslu mála. Hlutverk ráðuneytisins snýst um stefnumótun, þjónustu og leiðsögn. Starf aðildarfélaga í LH á að snúast um að reka stofnanir og glíma við að finna lausnir. Alltaf eigi að hafa neytendur í forgrunni, lausnir eiga að vera fyrir þá.
Ráðherra vill efla samvinnu við stofnanir VEL og auka sjálfræði þeirra en gæta þurfi þess jafnframt að vinna ætíð í gegnum ráðuneytið og varðveita liðsheildina. Boðleiðir fyrir gagnrýni og endurmat þurfa einnig ávalt að vera opnar.
Til að efna vilyrði sem gefið var við síðustu fjárlagaafgreiðslu og til að bæta samvinnu VEL við heilbrigðisstofnanir stendur nú yfir verkefni sem felst í því að starfsmenn VEL hafa verið að fara um landið til þess að heimsækja stofnanir ásamt fulltrúa frá öðrum heilbrigðisstofnunum. Þetta verkefni er nú í gangi og í tengslum við það verður lagður grunnur að tillögum um skilgreiningu á grunnþjónustu fyrir hvert byggðalag og hvar eigi að bjóða upp á sérhæfðari þjónustu.
Pólitísk sýn ráðherra er að allt starf heilbrigðiskerfissins eigi að snúast um að þjónusta notendur af virðingu og jöfnuði. Þjónustan á fyrst og síðast að vera með áherslu á gott viðmót, á gæði, skilvirkni og hagkvæmni. Nýta á hæfileika starfsfólksins, efla sjálfstæði þess, ábyrgð og frumkvæði með jafnræði að leiðarljósi. Vanda þarf áætlanagerð og markmiðssetningu til langs tíma með sátt að leiðarljósi.
Næst á dagskrá var Kynning á nýju Velferðarráðuneyti sem Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri var með.
Sameining heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins í eitt velferðarráðuneyti gengur samkvæmt áætlun en er mikið verk og verður ekki að fullu lokið fyrr en í október þegar stefnumörkun fyrir hvern og einn starfsmann á að ljúka. Markmiðið með sameiningunni er betri þjónusta við almenning og að gera hana eins góða og kostur er fyrir óbreytt framlög.
Stofnanir hins nýja Velferðarráðuneytis og samstarf þeirra var yfirskrift erindis sem Sveinn Magnússon skrifstofustjóri flutti.
Við samslátt tveggja ráðuneyta í eitt, VEL, verða miklar breytingar, ekki síst hugarfarslegar. Nú er yfirstjórn ríkisstofnana á velferðarsviðum og eftirlit með þjónustu áþekkra stofnana á vegum sveitarstjórna og einkaaðila komin á eina hendi. Þetta er mikilvægt þegar stefnir í að heilir málaflokkar séu að fara til sveitarfélaga en eftirlitið verður áfram í VEL. Stofnanir á sviði barnaverndar, fötlunarfræða og eftirlits eru nú komin saman undir eitt ráðuneyti. Landsamtök heilbrigðisstofnana ættu e.t.v. samkvæmt því að breytast í Landssamtök velferðarstofnana?! Aðal atriðið er að þjónustan á að breytast, samlegðin á að verða meiri en summan ein þó að fjárveitingar aukist ekki. Samvinna heimaþjónustu, heimahjúkrunar og heilsugæslu er nærtækt dæmi. Gefa þarf sér tíma til þess að skoða alla möguleika á þessu sviði og síðan að sýna kjark til þess að taka þær ákvarðanir sem skynsamlegar virðist vera. Í ráðuneytinu stendur vinnuaðstaða til boða fyrir fulltrúa úr framkvæmdaráðum stofnana sem þurfa á því að halda í skemmri tíma. Hafa skal samband við Ingiríði Hönnu Þorkelsdóttur ritara (
Hvaðan erum við að koma? var yfirskriftin á erindi Jóns Helga Björnssonar forstjóra Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga.
Jón rakti af spaugsamri alvöru á skýran hátt hvernig þróun síðustu ára hefur verð í heilbrigðiskerfinu og hvernig Fjárlagafrumvarpið fyrir 2011 kom eins og sprengja inn í stofnun hans og samfélag. Lýsti hann hvaða afleiðingar frumvarpið hafði og í hvaða ógöngur stefndi hefði það gengið óbreytt fram. Með pólitískri varnarbaráttu landsbyggðarinnar tókst að afstýra slysi en eftir standa ógróin sár og traust hefur glatast. Það þarf að byggja upp að nýju, efla samráð ráðuneytis og stofnana þess og skýra ágreining sem kann að myndast en síðast en ekki síst þarf heilbrigðiskerfið á pólitískum stöðugleika að halda.
Hvert erum við að fara? hét erindi Steinunnar Sigurðardóttur framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
Steinunn sem var annar tveggja starfsmanna ,,af gólfinu'' sem skiptu með sér að fara með nefnd VEL um landið að heimsækja stofnanir. Heimsóknirnar reyndust stofnunum ganglegar, umræður spunnust með nýjum hætti um verkefni þeirra, staðhætti, veikleika og styrk. Almennt virtust stofnanir vera á rekstraráætlun en frekari niðurskurður krefðist beinnar aðkomu VEL því þá væri komið að því að ákveða hvaða þjónusta verður lögð niður. Stofnanir eru víða að glíma við atgerfisflótta lækna og nú einnig í vaxandi mæli hjúkrunarfræðinga. Sjá verður til þess að vinnustaðirnir séu áhugaverðir, vel búnir og verkefni þeirra miðuð við þarfir íbúanna. Framkvæmdastjórnir vilji fara með VEL í það að skilgreina hvaða þjónusta eigi að vera hvar því þessari óvissu um framtíðina verði að fara að ljúka. Sveitarfélög eru mjög misjafnlega stödd varðandi þjónustu þeirra og skoða þarf opnum huga hvernig heilbrigðisstofnanir og sveitafélög geta sameinast um að halda uppi og bæta þjónustustig á sínum svæðum. Lausnirnar þurfi ekki að vera eins allsstaðar og sumstaðar gæti verið heppilegra að heilbrigðisstofnanir tækju að sér félagsþjónustuna. Vildi Steinunn þakka ráðherra sérstaklega fyrir að brydda upp á þessum heimsóknum.
Arndís Ósk Jónsdóttir stjórnunarráðgjafi varpaði fram spurningunni: Er þetta ekki komið nóg? í síðasta erindi dagsins.
Þar fjallaði hún um fyrirbærið breytingarþreytu sem hrjáir heilbrigðisstarfsmenn víða um lönd. Sérstaklega reynist fólki erfitt að höndla pólitíska óreiðu. Fólk er löngu orðið þreytt á óvissu, nýjum og nýjum kröfum um breytingar og áhrifaleysi á eigin starfsaðstæður. Breytingaþreyta er eðlilegt tilfinningaástand við þessar aðstæður. Það vill hins vegar gleymast hvað vinnan er gagnleg fyrir mann sjálfan og skemmtileg. Stjórnendur eiga vinna með eigin tilfinningar, að gera ráð fyrir mótþróa og leggja við hlustir, leggja mikla vinnu í að ræða þörfina fyrir breytingum og hjálpa fólki að skilja valkostina sem eru í boði. ,,Þetta er eins og langhlaup sem maður hvetur aðra til að hlaupa''. Glæruefni Arndísar Óskar hefur verið sent út á framkvæmdaráðin í LH.
Þar með lauk fræðsludagskrá fyrri dags vorfundarins og við tók skoðunarferð og móttaka hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og síðan sameiginlegur kvöldverður með skemmtiatriðum heimamanna undir styrkri veislustjórn Guðjóns Brjánssonar.
Föstudagsmorguninn 13. maí tók Margrét Guðjónsdóttir við fundarstjórn.
Dagskráin hófst með erindi Björns Gunnarssonar svæfingar- og umsjónarlæknis sjúkraflugsins á FSA og kallaði Björn erindi sitt Heilbrigðisþjónusta í dreifbýli.
Þar gerði Björn stefnumótun dreifbýlisþjónustunnar á sviði fæðingaþjónustu og sjúkraflutninga að megin umfjöllunarefni sínu. Kom meðal annars fram í máli Björns að fjórðungur af skaðabótum sem greiddar eru í Noregi vegna mistaka í heilbrigðisþjónustu eru vegna mála tengdum börnum og fæðingu. Í því landi hafi menn komist að þeirri niðurstöðu að ef ekki væri vegna fæðingaþjónustu væru skurðlæknavaktir á héraðssjúkrahúsum óþarfar. Það er erfitt að tryggja gæði þessarar þjónustu á minni stöðum og stöðugleika þannig að hún sé ávalt til staðar þegar á þarf að halda vegna tíðra mannaskipta og reynsluleysis afleysingalækna. Fjöldi fæðinga og aðgerða er ekki eina breytan í þessu dæmi heldur einnig staðsetning og tími sem það tekur að leita annað. Tímabært er að endurskoða verkefni héraðssjúkrahúsa hér á landi. Sjúkraflutningar tengjast þessu beint og þróunin leiðir til þess að vægi þeirra eykst. Það var í mótsögn við þetta að fjármagn til sjúkraflutninga var minnkað í fjárlögum 2011 nema á Suðvesturhorninu. Nálægð sjúkrahúsa við flugvelli er lykilatriði sem þarf að gæta að varðandi sjúkraflugið og gildir sérstaklega fyrir Landspítalann og eins í Neskaupstað. Sjúkraflugið má gjarnan skoða í samhengi við þörf Grænlending og Færeyinga fyrir bráðaþjónustu því Ísland getur boðið þessum löndum þjónustu á því sviði. Þyrluþjónustu landsins þarf að skipuleggja út frá tölvugreiningu á ólíkum breytum sem hana varðar. Staðsetning þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði ef af verður er til dæmis í eðli sínu stór heilbrigðispólitísk ákvörðun.
Er örygginu ógnað? er spurning sem Lilja Stefánsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á skurðlæknasviði LSH leitaðist við að svara í fyrirlestri sínum.
Atgerfisflótti er ekki ný ógn heldur er alþjóðlegt vandamál. Framborð og eftirspurn er flókið samspil sem nú er að fá nýtt vægi fyrir Ísland. Styrkurinn sem falist hefur í því að mennta heilbrigðisstarfsmenn víða um lönd er núna að snúast yfir í veikleika.Það hafa verið miklar breytingar í heilbrigðiskerfinu undanfarið og á hrunið stóran þátt í því. Litlar breytingar voru í læknamönnun LSH 2006 - 2010 en nú eru blikur á lofti. Nýtt er að Læknafélagið og Félag unglækna hafa tekið þessa umræðu upp. Þetta snertir nú æ fleiri heilbrigðisstéttir sem starfa erlendis í lengri og skemmri tíma. Vandinn er að hluta til heimatilbúinn og hefur nýliðastefnu ekki verið sinnt. Til dæmis var menntun skurðstofuhjúkrunarfræðinga ekki sinnt í 12 ár og mikill skortur á þeim blasir nú við. Stór hópur þeirra er orðinn 60 - 64 ára og eftirspurn frá nýju íslensku útrásarfyrirtækjunum eykur á vandann. Fjöldatakmarkanir í námi er einn þátturinn sem áhrif hefur. Leggja þarf upp áætlun um hvernig bregðast eigi við fyrirsjáanlegum starfsmannaskorti í framtíðinni. Hver starfsmaður er mikilvægur og miklu hefur verið kostað til náms hans og starfsþjálfunar. Fáir starfsmenn eru í lykilhlutverkum á Íslandi, lítil breyting getur haft mikil áhrif. Skipulag okkar og umgjörð kjarasamninga er barn síns tíma, alltof mikil miðstýring ríkir, áherslur á röng atriði, tíma í stað verkefna/afkasta, auka þarf vægi stofnana í samningagerð og opna leiðir til nýrra lausna sem geta skapað hagræðingu. Þetta eru að verða einu tækin til hagræðingar sem eftir eru. Virkja þarf kraft starfsmanna og gefa stjórnendum meira svigrúm. Skýrsla um skipulag sérfræðiþjónustu er góð og þarf hún að komast til framkvæmda. Örygginu verður ógnað ef ekki er brugðist við þeim blikum sem nú eru á lofti.
Aron Björnsson yfirlæknir heila- og taugaskurðlækningasviðs LSH var næstur með erindi sem hann kallaði Möguleikar til breytinga.
Greindi Aron frá því hvernig stjórnendur og starfsmenn heilaskurðdeildar mættu þrengingum sem kreppan hafði í för með sér. Ákveðið var að endurskoða alla starfsemi og alla verkferla, auka göngudeildarþjónustu, gera dagdeildina virkari, fækka milliliðum milli sjúklinga og lækna, læknar bóka beint á biðlista og ný vinnubrögð innleidd á mörgum sviðum. Með því að koma upp samhentum og ósérhlífnum samstarfshópi þar sem allir skipta máli má snúa vörn í sókn. Krafan á að vera á gæði, skilvirkni, hagkvæmni og metnað í starfi. Á sama tíma þarf að halda sjúklingum ánægðum. Ef þetta er gert er hægt að gera kröfur um fullkominn tækjabúnað og möguleika á rannsóknum án biðlista. Það á að vera gaman í vinnunni en einnig líka að koma heim. Nú eru tímar fallnir til þess að leita nýrra leiða, laga ferla og vinnuaðferðir. Tekist hefur gott samstarf við Sjúkratryggingar Íslands um að flytja heim verkefni sem borgar sig að vinna hér. Við verðum að standa okkur og gera hlutina sjálf, að öðrum kosti missum við af tækifærum til að fullnægja faglegum metnaði okkar og viðhalda sjálfsvirðingunni og verkefnin fara annað. Sumar faggreinar verða að gæta sín á því að skemmast ekki innanfrá vegna óánægju og eiga þannig á hættu að deyja út. Það var hressandi að hlýða á Aron á tímum erfiðleika og mæðu úr margra munni og skynja þann hug og bjartsýni sem hann talaði fyrir og sjá að snúa má vörn í sókn. Mikið veltur þetta á hugarfarinu.
Síðasta erindið flutti Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu. ,,Hvað þarf til þess að ná árangri - Hugarfar sigurvegarans''.
Kom Sigurður víða við og leiddi fram mörg dæmi í máli, tónum og myndum af sigurvegurum og afburða fólki á mörgum sviðum. Það sem SRE segir einkum að einkenni afburðafólk á sviði íþrótta og víðar er ástríða fyrir því sem það er að gera og þrá eftir því að skara fram úr, læra af mistökum, gera kröfur til sjálfra sín fremur en annarra. Huga að því hvernig maður getur bætt sig um 1% á mörgum sviðum fremur en að ætla sér að bæta sig 100% á því sviði þar sem maður er veikastur. Glæruhluta erindisins veitti SRE góðfúslega aðgang að og hefur honum verið dreift út til stofnana innan LH. ,,Geti einhver nýtt sér 2-3 atriði af því sem ég hef að segja hefur fyrirlesturinn borið árangur.''
Með þessum fyrirlestri lauk fyrsta vorfundi Landsambands heilbrigðisstofnana á hádegi. Fóru fundarmenn fróðari hver til síns heima og þeir sem tjáðu sig voru ánægðir með dagskrána og fyrirlesarana og þann áhuga sem VEL sýndi ráðstefnunni. Þótti undirbúningsnefndin hafa staðið sig með stakri prýði.
S. Þ.
18.04.2011 16:53
Horft til framtíðar
Vorfundur Landssambands heilbrigðisstofnana haldin
á Hótel Selfossi 12-13 maí 2011.
Fimmtudagur 12. maí:
Kl. 13.00 Fundarsetning
Birgir Gunnarsson formaður LH
Kl. 13.05 Heilbrigðisþjónusta í nútíð og framtíð
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra
Kl. 13.30 Kynning á nýju Velferðarráðuneyti
Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri
Kl. 14.00 Stofnanir hins nýja Velferðarráðuneytis
og samstarf þeirra
Sveinn Magnússon skrifstofustjóri
Kl. 14.30 Hvaðan erum við að koma?
Jón Helgi Björnsson forstjóri HÞ
Kl. 14.50 Kaffihlé
Kl. 15.10 Hvert erum við að fara?
Steinunn Sigurðardóttir framkv.stj. hjúkrunar HVE
Kl. 15.30 Er þetta ekki komið gott?
Arndís Ósk Jónsdóttir stjórnunarráðgjafi
Kl. 16.30 Dagsrkárlok á fimmtudegi
Fundarstjóri: Erna Einarsdóttir
Kl. 17-19 Óvissuferð með hressingu og
óvæntum uppákomum
Kl. 20.00 Kvöldverður á Hótel Selfossi
Föstudagur 13. maí:
Kl. 09.00 Heilbrigðisþjónusta í strjálbýli
Björn Gunnarsson læknir
Kl. 09.30 Er örygginu ógnað?
Lilja Stefánsdóttir framkv.stj.skurðlækningasvið LSH
Kl. 10.00 Möguleikar til breytinga
Aron Björnsson yfirl. heila- og taugaskurðl.sviðs LSH
Kl. 10.30 Kaffihlé
Kl. 10.45 "Hvað þarf til að ná árangri?
- Hugarfar sigurvegarans".
Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari A landsliðs kvenna
í knattspyrnu
Kl. 12.00 Fundarlok
Fundarstjóri: Margrét Guðjónsdóttir
Þátttaka tilkynnist á netfangið
Þátttökugjald er kr. 12.500 innifalið í því er kvöldmatur.
Þáttakendur sjá sjálfir um að bóka gistingu á Hótel Selfossi.
06.04.2011 08:50
Skráning á vorfund
Skráning er hafinn á fundinn hjá Sigrúnu Ólafsdóttur í netfangi:
Þátttakendur sjá sjálfir um að bóka sig á hótelið.
Dagskrá fundarins verður tilbúin í næstu viku og verður send með tilkynningu í tölvupósti.
25.02.2011 13:19
Vorfundur
Landssamband Heilbrigðisstofnana boðar til vorfundar dagana 12-13 maí n.k. á hótel Selfossi. Dagskrá mun hefjast eftir hádegi þann 12.maí og ljúka um hádegi þann 13.maí. Fyrri dagurinn verður helgaður dagskrá sem sett verður saman í samáði við Velferðarráðuneyti s.s. samskipti við stofnanir, sameiningarmál, fjárlög næsta árs, kynning á nýju ráðuneyti o.fl. Seinni dagurinn verður síðan með uppbyggilegri dagskrá fyrir hópinn. Nánari dagskrá verður send út síðar. Við höfum tekið frá herbergi á hótelinu en hver og ein stofnun sér um að bóka gistingu. Stefnt er að sameiginlegri kvöldmáltíð á fimmtudagskvöldinu á hótelinu og væri gott að láta hótelið vita af þátttöku um leið og gisting er bókuð
F.h. Stjórnar LH
Birgir Gunnarsson formaður