Skýrsla formanns og stjórnar LH

Skýrsla formanns og stjórnar LH

Aðalfundur 9. nóvember 2022

Á síðasta aðalfundi sem haldinn var á teams þann 11 nóvember 2021 var ég Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir, kosin sem formaður til eins árs. Nína Hrönn Gunnarsdóttir HSA, Ólafur Baldursson LSH, Guðbjörg Gunnarsdóttir Reykjalundi og Þórhallur Harðarson HSN voru kosin til tveggja ára og eiga því eitt ár eftir enn með möguleika á endurkjöri, því samkvæmt reglum þá má hver stjórnarmeðlimur sitja að hámarki í 4 ár. Ólafur Baldursson hefur snúið til starfa í Svíþjóð og gengur því úr stjórn. Fjölnir Guðmundsson HSS hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi starfa. Hildur Elísabet Pétursdóttir HVEST og Ásgeir Ásgeirsson HVE hafa lokið tveimur árum en bjóða sig áfram til starfa fyrir LH. Ólafi og Fjölni eru þökkuð afar góð störf í þágu Landssambandsins.

Frá síðasta aðalfundi hafa verið haldnir 7 formlegir stjórnarfundir á teams, en samkvæmt samþykktum skal stjórn hittast eigi sjaldnar en tvisvar á starfsárinu. Á starfsárinu hefur stjórnin einnig fundað óformlega þess á milli eftir því sem tilefni er til. Í samþykktum Landssambandsins er hlutverk stjórnar skilgreint í stórum dráttum á þann veg að efla eigi samstarf, standa vörð um hagsmuni og vera í forsvari fyrir stofnanir eftir því sem við á og lög heimila. Stjórn skal stuðla að samstarfi stofnana og heilbrigðisyfirvalda, gangast fyrir upplýsinga- og fræðslustarfsemi í þágu stofnana og stuðla að rannsóknum innan heilbrigðisþjónustunnar.
Megináherslur í starfi stjórnar hefur verið að skipuleggja hinn árlega vorfund og hins vegar aðalfund og málþing í tengslum við hann. Sambandinu berast jafnframt beiðnir og erindi sem tekin eru fyrir á stjórnarfundum.

Á starfsárinu bárust beiðnir frá Heilbrigðisráðuneyti þar sem óskað var eftir tilnefningum frá Landssambandi heilbrigðisstofnana í starfshóp sem á að koma með tillögur að leiðum til að jafna aðgang að ýmis konar sérfræðiþjónustu óháð búsetu, þar voru Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir HSU og Gylfi Ólafsson HVest tilnefnd fyrir hönd LH. Einnig var beðið um fulltrúa í starfshóp sem hefur það hlutverk að setja fram lýsingu fyrir almenning á fyrirkomulagi vegvísunar í heilbrigðiskerfinu og í þann hóp voru Þura Björk Hreinsdóttir HSV og Áslaug Halldórsdóttir HSN tilnefnd. Eins hefur nú verið óskað eftir tilnefningu í stýrihóp um þróun og stefnumótun um starfrænar lausnir og heilbrigðistæknilausnir við veitingu heilbrigðisþjónustu en sú beiðni er nýkomin og ekki búið að tilnefna aðila fyrir hönd LH í þá vinnu

Á síðasta aðalfundi var tekin sú ákvörðun að koma á verkefna-/rannsóknarstyrk upp á 750.000 árlega og kynna það fyrir félagsmönnum LH á málþingi. Enginn hefur sótt um þennan styrk á þessu ári sem er miður og hvetjum við ykkur til að vera vakandi fyrir verkefnum sem gætu átt þarna heima.

vorthing isf lshs

Vorfundur var haldinn í maí sl á Ísafirði. Þar tóku heimamenn ákaflega vel á móti okkur og færum við þeim miklar þakkir fyrir. Um var að ræða tveggja daga málþing þar sem áhersla var lögð á mannauð, velferðartækni og sameiginlega vegferð heilbrigðisstofnana. Við fræddumst um verklagreglur vegna kynferðislegs áreitis, Datix atvikaskráningarkerfið, Vörutog gagna og spáðum hvort við gætum komið vottorðum í starfrænt ferli. Þetta ásamt mörgu öðru var til umræðu og það er greinilega mikil og góð vinna í gangi víða og við getum klárlega lært af hvert öðru.

Við á HSU fórum í afar góða heimsókn norður þar sem við heimsóttum HSN, SAk og Öldrunarheimili Heilsuverndar. Við fengum frábærar móttökur og það sem meira var við lærðum ótal margt af vinum okkar fyrir norðan sem eru að gera svo frábæra hluti. Við sáum þar hvað það skiptir miklu máli að vera í góðum samskiptum og spruttu upp mörg verkefni sem hægt er að vinna að í sameiningu. Við áttum jafnframt að skila góðri kveðju til fundarins frá framkvæmdastjórn SAk sem ekki hafði kost á að vera með okkur hér í dag.

Undanfarið ár hefur verið þungt hjá heilbrigðisstofnunum landsins. Covid verkefnum hefur vissulega fækkað en engu að síður eru enn stór verkefni því fylgjandi þrátt fyrir að önnur starfsemi sé jafnframt komin á fulla ferð og áhrif covid eftirkasta farin að gera vart við sig, við finnum að heilbrigðisstarfsfólk er þreytt eftir erfið tvö ár. Við getum þó með sanni sagt að við erum einstaklega rík af góðu, faglegu starfsfólki.
Betri vinnutími hefur náð fótfestu og fólk er að venjast breytingunum. Í heildina er mjög mikil ánægja með breytinguna en flækjustig í vaktavinnu hefur aðeins dregið úr gleðinni hjá mörgum. Það stendur þó sennilega allt til bóta sem og fólk skilur betur flækjustigið með tímanum. Skuggahlið verkefnisins er þó að erfiðar gengur að manna þar sem vöntun er á fleiri stöðugildum en áður.

Fram undan er jafnframt krefjandi starfsár þar sem margir kjarasamningar eru lausir og verkefnin ærin en við tökumst á við það með sama krafti og hingað til í sameiningu. Fjármálin eru okkur hugleikin og því er það aðal viðfangsefni fundarins í dag en við munum heyra erindi um greiningu á fjárheimildum stofnana, fjárlagagerð ríkisins og veikindi og fjarveru vegna þeirra.

Fyrir hönd stjórnar LH þá vona ég að þið njótið málþingsins og fáið hugmyndir til að taka áfram inn í ykkar starf.

Takk fyrir
Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir formaður

Hér er hægt að sækja glærur frá stjórn