Aðalfundur Landssambands heilbrigðisstofnana haldinn 10. desember 2012 kl. 13:00 að Hótel Natura. Í tengslum við fundinn var dagskrá á vegum velferðarráðuneytisins og LSH. Formaður stjórnar Birgir Gunnarsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna. Formaður tilnefndi Árna Sverrisson fundarstjóra og Þórunni Ólafsdóttur fundarritara.
Árni tók við stjórn fundarins og fór yfir fyrirliggjandi dagskrá.
Að ósk velferðarráðuneytisins og LSH var dagskrá á þeirra vegum haldin á undan aðalfundi.
Dagskráin hófst á kynningu á tillögum ráðgjafahóps ráðherra um bætt skipulag heilbrigðisþjónustu.
Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri sagði að þau Sveinn Magnússon myndu kynna tillögur ráðgjafahóps ráðuneytisins en síðan myndi Gunnar Alexander Ólafsson kynna sérstaklega tillögur varðandi stefnu í innkaupamálum.
Tillögur ráðgjafahóps ráðherra um bætt skipulag heilbrigðisþjónustu.
Anna Lilja sagði að mikið hafi gerst frá því í fyrra, en ráðuneytið kynnti úttekt ráðgjafahóps Boston Consulting Group á aðalfundi LH í des. 2011, en þá var vinna ráðgjafahópsins nýhafin.
Ráðgjafahópurinn hefur starfað síðan með nokkra vinnuhópa á sínum snærum. Hún rifjaði upp að ráðgjafahópurinn var settur á laggirnar 2011 til að skoða skipulag heilbrigðiskerfisins og ráðstöfun fjármuna. Eins hvort gera þurfi grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu og í hverju þær eigi þá að felast. Tilgangurinn var að uppfylla markmiðið um öryggi og jöfnuð, á sama tíma og fjárlögumværi mætt. Nokkrar skýrslu eru til um grundvallarvinnu hópsins.
Fulltrúar frá Boston Consulting Group komu til landsins og unnu með hópnum og fóru m.a. í heimsóknir á margar heilbrigðisstofnanir. Í kjölfarið voru stofnaðir 9 vinnuhópar og í þeim voru yfir 60 sérfræðingar úr heilbrigðiskerfinu. Einnig vann ráðgjafahópurinn með faghópi. Í ráðgjafahópnum eru 10 fulltrúar heilbrigðisstarfsmanna víðsvegar af landinu. Farið verður yfir megintillögur ráðgjafahópsins hér á eftir.
Í máli Önnu Lilju kom einnig fram að mikilvægasta niðurstaðan sem Boston Consulting Group komst að er að gæðin í þjónustunni eru allmennt mikil í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir. Aðgengi að sérfræðilæknum er nær ótakmarkað en aðgengi að heimilislæknum áhyggjuefni. Kostnaðurinn er sambærilegur við aðrar þjóðir en samkvæmt nýjustu tölum hefur kostnaðurinn aðeins lækkað. Helsti vandinn er skipulag heilbrigðisþjónustu sérstaklega sérgreina og öldrunarþjónustu og að blandað er saman ¨fee for service¨ og föstum framlögum sem verður til þess að mismunandi hvati er í kerfinu. Bæta má flæði sjúklinga í kerfinu og rafræna skráningu.
Sveinn Magnússon tók nú við og útskýrði vinnuferli hópanna.
Ráðgjafahópurinn hefur skilað sinni vinnu, og yfirhópur ráðuneytisins er nú sem stendur að skila af sér endanlegum tillögum til ráðherra. Þær tillögur sem hér eru kynntar eru því ekki staðfestar af ráðherra og verða ekki að veruleika fyrr en hann hefur lagt sitt mat á þær og samþykkt að gera þær að sínum.
Markmið og niðurstöður vinnuhópanna 9.
Hópur 1. Leggur til að samtengdri rafrænni sjúkraská á landsvísu verði komið á. Mælt er með innleiðingu í þremur skrefum sem taki 5-7 ár.
Hópur 2. Skráning og birting heilbrigðisupplýsinga verði samræmd. Landlækni falin framkvæmdin. Hópur 3. Notendum þjónustunnar gert kleift að taka virkan þátt í eigin heilbrigðisþjónustu. Áætlað að koma á símaráðgjöf allan sólarhringinn fyrir allt landið og gagnvirkri heimasíðu um notkun á heilbrigðiskerfinu.
Hópur 4. Þjónustustýringu verði komið á í áföngum m.a. með því að ráðuneytið móti stefnu í miðlægri upplýsingagjöf til sjúklinga, að greiðslukerfi vegna utanspítalaþjónustu verði endurskipulagt og að heilbrigðisumdæmin verði virkjuð til að skipuleggja þjónustu fyrir sjúklinga á réttum stöðum.
Hópur 5. Sameiningu heilbrigðisstofnanna verði haldið áfram og skurðlækninga -og fæðingarþjónusta endurskipulögð.
Hópur 6. Sjúkraflutningar verði endurskipulagðir, m.t.t. menntunar og þjálfunar, reksturs og skipulags, faglegra mála og gæða.
Hópur 7. Framboð öldrunarþjónustu á landsvísu verði samræmt. Velferðarráðuneytinu falin framkvæmdin.
Hópur 8. Viðbragðsáætlun verði sett fram gegn offitu. Í framhaldi niðurstöðu hópsins var verkefninu beint til Embættis landlæknis til frekari úrvinnslu.
Hópur 9. Framkvæmd innkaupaáætlunar. Gunnar A. Ólafsson fer nánar yfir þann lið hér á eftir.
Í samantekt Sveins kom fram að yfirhópur ráðuneytisins leggur eftirfarandi til við ráðherrann í ljósi niðurstöðu vinnuhópanna.
1. Samtengdri rafrænni sjúkraskrá verði komið á. Á árinu 2013 verði gengið frá kaupum á nýju kerfi og innleiðing fari fram í áföngum.
2. Fyrirkomulag greiðslu til veitenda heilbrigðisþjónustu verði endurskoðað fyrir mitt ár 2013. Haft verði að leiðarljósi aukinn sveigjanleiki, hagkvæmni og gæði. Einnig verði greiðsluþátttaka sjúklinga endurskoðuð.
3. Heilbrigðisþjónusta verði efld m.t.t. aukinna gæða og hagkvæmni, m.a. verði lokið við sameiningu heilbrigðisstofnanna.
Að lokinni kynningu þeirra Önnu Lilju og Sveins, þakkaði fundarstjóri þeim fyrir og opnaði fyrir spurningar. Umræða var um kostnað við fjármögnun nýs sjúkraskrárkerfis. Rætt um sjúkraflutninga og hlutverk Rauða krossins í því verkefni. Minnst á flutning á málefnum aldraðra til sveitafélaganna og hvernig skilja eigi þann málflokk frá heilbrigðisþjónustunni. Lögð áhersla á að auka þurfi samvinnu milli heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila. Lögð áhersla á að ráðuneytið fundi reglulega með heilbrigðisstofnun.
Næstur tók til máls Gunnar A. Ólafsson viðskiptafræðingur í velferðarráðuneytinu og formaður vinnuhóps 9 um stefnu í innkaupamálum.
Innkaupamál hafa verið lengi í skoðun eða frá árinu 2010. Markmiðið er að samræma og gera innkaup stofnana hagkvæmari. Í niðurstöðum vinnuhópsins er lagt til að LSH fái víðtækara hlutverk og þjóni fleiri stofnunum. Settur verði á laggirnar samstarfsvettvangur innkaupa heilbrigðisstofnanna en þar eigi LSH-FSA-HH fulltrúa ásamt einum fulltrúa frá hverju heilbrigðisumdæmi. Verkefnið felst í samræmdum innkaupum heilbrigðisstofnanna á lyfjum, hjúkrunarvörum og lækningatækjum.
Fundarstjóri þakkaði fyrir erindið og bauð fundarmönnum að leggja fram spurningar.
Fundarmenn bentu á að lítið fé væri til kaupa á lækningatækjum og hætta væri á að um tvöfalt innkaupakerfi yrði að ræða.
Margrét Björnsdóttir fjallaði um ný lög nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.
Ný lög um heilbrigðisstarfsmenn taka gildi 1. janúar 2013. Tilgangur með nýrri lagasetningu er að samræma og einfalda regluverkið – gera það skýrara og hnitmiðaðra. Grundvöllur frumvarpsins er byggður á læknalögum og norskum lögum um heilbrigðisstéttir. Frumvarpið var lagt 4 sinnum fyrir alþingi og var loks samþykkt 1. maí s.l. Engar stéttir voru felldar út og getur ráðherra nú fellt nýjar stéttir undir lögin með reglugerð og þarf ekki að leggja tillögur þar að lútandi fyrir alþingi.
Gera þarf reglugerð um hverja heilbrigðisstétt, starfsleyfi og sérfræðileyfi. Sérstakur kafli er í lögunum um faglegar kröfur og ábyrgð. Við gildistöku laga um heilbrigðisstéttir falla 15 lög og 30 reglugerðir brott.
Fundarstjóri þakkaði fyrir erindið og bauð fundarmönnum að leggja fram spurningar.
Margrét var spurð hvor húsbóndavald stofnanna myndi breytast við lögin en því var svarað að húsbóndavald stofnanna verður óbreytt.
Endurnýjun húsnæðis LSH Björn Zoëga og María Heimisdóttir.
Björn Zoëga sagði húsakost spítalans lélegan og endurbætur dygðu ekki. Það þyrfti að byggja nýjan háskólaspítala. Mikilvægt að halda áfram með verkefnið. Aðstæður í dag ógna öryggi.
Lykilatriði eru að rekstrarsparnaður LSH í nýjum spítala er um 2,5 – 3,0 milljarðar á ári og mun með tímanum greiða byggingarkostnaðinn. Verulegur hagur fyrir sjúklinga þar sem einbýlum á legudeildum mun fjölga. Aukin afkastageta starfsfólks fyrir stærri og eldri kynslóðir Íslands. Öruggari og hagkvæmari heilbrigðisþjónusta. Í máli Björns kom fram að vonast er til að fyrsta áfanga ljúki 2017.
María Heimisdóttir tók við og lagði megináherslu á þörf fyrir endurnýjun, raunumfang og kostnaðaráætlun.
Þörf fyrir endurnýjun. Sparnaður LSH síðan eftir hrun hefur verið mikill, rekstrarkostnaður síðan þá hefur dregist saman sem nemur 23%. Sérfræðingar Momentum í Noregi telja að forsendur frekari hagræðingar sé nýtt húsnæði. Núverandi húsnæði hamlar þjónustu og ef ekki er byggður nýr spítali þá erum við ekki samkeppnisfær við Norðurlönd. Í óbreyttu umhverfi er erfitt að sinna öryggis- og gæðaþáttum. Aukin fjölgun aldraðra og fjölgun fólks með langvinna sjúkdóma á eftir að kalla á aukna þörf fyrir sjúkrahúsþjónustu. Þjónustan kostar 3-5 sinnum meira eftir 65 ára aldur.
Raunumfang. Ráðgert er að nýtt húsnæði LSH, sem talað er um að byggja, verði um 76.000 fm. Með eldra húsnæðinu sem notað verður áfram verður húsnæði LSH í heild sinni 132.000 fm.. Fagstéttir hafa verið með í hönnunaráætlunum frá upphafi.
Endurskoðuð kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir 48,5 milljarða heildarkostnaði við bygginguna. Áætlað er að rekstur nýja húsnæðisins kosti 88 milljónum meira á ári en rekstur gamla húsnæðisins. Við erum síður háð mannafla í nýju húsnæði en gömlu. Nýbyggingin er fjárfesting í nýju, öruggu, hagkvæmu og sveigjanlegu húsnæði. Við erum alltaf betur stödd að byggja en byggja ekki.
Næstu skref, Reykjavíkurborg er að klára afgreiðslu deiliskipulagsins í þessari viku. Við eigum von á að í janúar n.k. verði ný lög varðandi verkefnið lögð fram á alþingi og þau lög feli í sér að ríkið muni sjálft fjármagna framkvæmdina, líklegast með aðkomu lífeyrissjóðanna.
Fundarstjóri þakkaði greinagott erindi og bauð fundarmönnum að leggja fram spurningar. Í umræðunni kom fram mikilvægi þess að endurnýja sjúkrahús eins og önnur hús oftar en á 100 ára fresti. Lögð var áhersla á að hefjast handa við framkvæmdina til að fá heilbrigðisstarfsfólk sem fyrst heim til starfa. Áhersla á að aðgengi landsbyggðarinnar að spítalanum sé fullnægjandi með því að flugvöllurinn haldist í Vatnsmýrinni. Spurt var hvernig ávöxtun lífeyrissjóðanna verði og er hún talin frekar góð ef miðað er við vaxtastigið og að þeir hafa ekki marga fjárfestingarmöguleika hérlendis.
Eftir kaffihlé hófst aðalfundur.
Aðalfundur.
Birgir Gunnarsson fór yfir skýrslu formanns og stjórnar.
Annað starfsár LH er liðið. Rétt er að líta yfir farinn veg, hvað hefur áunnist hvað má betur fara og hverjar hafa verið okkar mestu áskoranir. Á síðast aðalfundi voru kosin í stjórn
Magnús Skúlason, Stefán Þórarinsson, Jón Hilmar Friðriksson, Þórunn Ólafsdóttir og varamenn voru kosnir Herdís Klausen, Þröstur Óskarsson og Steinunn Sigurðardóttir.
Í máli formanns kom meðal annars fram að í samþykktum landsambandsins er hlutverk þess skilgreint í stórum dráttum á þann veg að efla eigi samstarf, standa vörð um hagsmuni og vera í forsvari fyrir stofnanir eftir því sem við á og lög heimila. Að stuðla að samstarfi stofnana og heilbrigðisyfirvalda og gangast fyrir upplýsinga og fræðslustarfsemi. Megin áherslan í starfi landssambandsins er annars vegar vorfundur og hins vegar aðalfundur og dagskrá í tengslum við hann. Velferðaráðuneytið hefur óskað eftir tilnefningu landsambandsins í hina ýmsu vinnuhópa eins og undirbúning nýrrar heilbrigðisáætlunar og vinnuhópa varðandi nýja sjúkraskrárkerfið. Í máli formanns kom fram að síðasti vorfundur var haldinn á Egilsstöðum í maí s.l. og var dagskránni skipt í fjóra megin þætti. Fyrsti hlutinn var í höndum heimamanna og þar var fjallað um heilbrigðisþjónustu, atvinnuþætti og mannlíf fyrir austan. Næst var fjallaði um sjúkraskrá, síðan var óvissuferð og endað í kvöldverði og skemmtum á Hótel Héraði. Þar bar hæst flutning heimamanna á rokkóperu í fullri lengd. Seinni daginn var dagskrá á vegum velferðarráðuneytisins og þar á eftir héldu formenn félaga lækna og hjúkrunarfræðinga erindi undir undirskriftinni Mannauður til framtíðar. Vorfundurinn heppnaðist í alla staði vel. Vorfundirnir eru mikilvægur þáttur í starfsemi sambandsins. Fyrsti vorfundurinn var haldinn á Selfossi sá næsti á Egilsstöðum og nú hefur stjórn ákveðið að næsti vorfundur verði á Sauðarkróki í maí 2013. Fundargerðir stjórnar, auk fundargerða vor- og aðalfundar má finna á vefsíðu LH www.123.is . Í máli formanns kom enn fremur fram að ein helsta áskorun okkar stjórnenda stofnanna í heilbrigðisþjónustu á næstu misserum eru kjaramál starfsmanna. Nú eru liðin 4 ár frá hruni. Flestar stofnanir hafa tekið á sig um eða yfir 20% niðurskurð í kjölfar hrunsins. Allar aðgerðir hafa miðað að því að verja þjónustuna. Nú þarf að byggja upp að nýju. Á þeim tíma sem liðinn er frá hruni hafa kjör starfsmanna rýrnað verulega um leið og kostnaður hefur aukist. Svigrúm til að koma til móts við verðskuldaðar kjarabætur til starfsmanna er minna en ekkert. Vaxandi óánægja starfsmanna er með laun og það er ekki bundið við eina stétt. Uppsagnir hjúkrunarfræðinga á LSH eru líklega fyrstu steinarnir í þeirri skriðu óánægju starfsmanna sem yfir okkur hangir. Ef ekki verður brugðist við ástandinu er hætta á atgervisflótta með óbætanlegum skaða fyrir heilbrigðis- þjónustuna í landinu. Formaður lagði til, að beina því til stjórnar að senda áskorun til stjórnavalda um að tekið verði á þessum vanda sem við okkur blasir.
Formaður þakkaði stjórnarmönnum gott samstarf og sérstaklega Magnúsi, Stefáni og Steinunni, sem nú gagna úr stjórn. Formaður gaf kost á sér til formannsstarfa í ár til viðbótar.
Skýrsla formanns var samþykkt samhljóða .
Reikningar
Magnús Skúlason gjaldkeri fór yfir reikninga sambandsins en ársreikningi fyrir tímabilið 1. sept. 2011 – 31. ágúst. 2012 var dreift á fundinum og er hann yfirfarinn og undirritaður af skoðunarmönnum félagsins þeim Árna Sverrissyni og Sigríði Snæbjörnsdóttur. Magnús fór yfir sundurliðun á rekstrar- og efnahagsreikningi ásamt sjóðstreymi. Reikningar voru samþykktir samhljóða.
Lögð var fram tillaga um að árgjöld yrðu óbreytt en þau taka mið af fjárheimildum stofnanna og var það samþykkt samhljóða.
Þá var einnig lögð fram fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár og var hún samþykkt samhljóða.
Engar tillögur lágu fyrir um lagabreytingar.
Kosning formanns.
Birgir Gunnarsson var kosinn formaður samhljóða.
Kosning stjórnar.
Þrír ganga úr stjórn, þeir eru Magnús Skúlason, Stefán Þórarinsson og Steinunn Sigurðardóttir. Tillaga er um að tveir varamenn gangi upp í stjórn en þeir eru Herdís Klausen og Þröstur Óskarsson. Aðalmenn í stjórn eru þá Jón Hilmar Friðriksson, Þórunn Ólafsdóttir, Herdís Klausen og Þröstur Óskarsson. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Tillaga um varamenn eru Gunnar K. Gunnarsson, Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir og Nína Hrönn Gunnarsdóttir. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Skoðunarmenn eru nú Sigríður Snæbjörnsdóttir og Árni Sverrisson og gefa þau kost á sér áfram. Tillagan var samþykkt samhljóma.
Önnur mál.
Enginn óskaði eftir að taka til máls undir þessum lið.
Formaður þakkaði fundarstjóra og fundarmönnum fyrir fundarstjórnina og fundarsetuna og sleit fundi.
Fundi slitið kl 16:00
Þórunn Ólafsdóttir.