Fundargerð aðalfundar 29. janúar 2014

Fundargerð aðalfundar Landssambands heilbrigðisstofnana (Lh) haldinn á Hótel Nordica kl. 13:00 29. janúar 2014. Í tengslum við fundinn var dagskrá á vegum velferðarráðuneytisins. Formaður stjórnar Birgir Gunnarsson  setti fund og bauð fundarmenn velkomna. Formaður tilnefndi  Gunnar  Gunnarsson fundarstjóra og Þórunni Ólafsdóttur fundarritara.

 

Fundarstjóri fór yfir fyrirliggjandi dagskrá. Sú breyting var lög til, að byrja dagskrána á aðalfundi og  að fulltrúar velferðarráðuneytisins mættu á fundinn eftir kaffihlé.  Var það samþykkt.

Fyrsti liður á dagskránni var Aðalfundur Landssambandsins.

Skýrsla formanns og stjórnar

Birgir Gunnarsson fór yfir skýrslu formanns og stjórnar.  Þriðja starfsár Lh er liðið.  Á aðalfundi 2013 voru eftirtaldir aðilar kosnir í stjórn  Lh, 

Aðalfulltrúar:

  • Birgir Gunnarsson formaður
  • Jón Hilmar Friðriksson varaformaður
  • Herdís Klausen meðstjórnandi
  • Þórunn Ólafsdóttir ritari
  • Þröstur Óskarsson gjaldkeri

Varafulltrúar:

  • Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir
  • Nína Hrönn Gunnarsdóttir
  • Gunnar Gunnarsson

Formaður fór yfir sl. starfsár en þar bar hæst fundur sambandsins sem haldinn var á Sauðárkróki 16.-17. maí 2013.  Um 50 manns víðsvegar af landinu sóttu fundinn.  Dagskrá fundarins var fjölbreytt og áhugaverð.  Fyrri daginn var rætt um gæðavísa í heilbrigðisþjónustunni, notkun og þróun þeirra.  Seinni daginn var dagskráin á vegum Norðlendinga. Þar gætti ýmissa grasa, allt frá erindi um bráðaþjónustu og sjúkraflutninga í dreifbýli , til kynningar á fyrirtækinu Iceprótein en Hólmfríður Sveinsdóttir forstöðumaður kynnti fyrirtækið. 

Í máli formanns kom fram að megináhersla í starfi sambandsins væri annars vegar vorfundur og hins vegar aðalfundur og dagskrá í tengslum við þá. Formaður lagði áherslu á að það mikilvægasta hvað vorfundinn varðar væri að gefa fólki tækifæri til að hittast og ræða málin, og jafnframt að hvetja velferðarráðuneytið  til að nýta fundina til að koma upplýsingum  á framfæri til stofnana innan Lh.  Í byrjun markaði stjórn þá stefnu að vorfundirnir skyldu haldnir sem víðast um landið. Stefnt er að því að næsti  vorfundur verði haldinn  á Ísafirði í  maí n.k. en það verður í höndum nýrrar stjórnar að fastsetja dagsetningu.

Formaður gaf ekki kost á sér til endurkjörs og óskaði nýjum formanni og stjórn velfarnaðar í starfi.

 

Reikningar

Þröstur Óskarsson gjaldkeri  fór yfir reikninga sambandsins en ársreikningi fyrir tímabilið 1. sept. 2012 -31.ágúst 2013 var dreift á fundinum, og er hann yfirfarinn og undirritaður af skoðunarmanni félagsins Árna Sverrissyni. Þröstur fór yfir sundurliðun á rekstrar- og efnahagsreikningi ásamt sjóðstreymi.  Lögð var fram tillaga um að árgjöld yrðu óbreytt frá fyrra ári og var það samþykkt samhljóða.  Þá var einnig lögð fram fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár og var hún samþykkt samhljóða.

Kosning formanns

Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar / bráða- fræðslu- og gæðasviðs á Sjúkrahúsinu á Akureyri gaf kost á sér í formannsstarfið. Engin mótframboð voru og var hún kosin formaður samljóða.

Kosning stjórnar

Í stjórn voru kosin auk formanns:

  • Jón Hilmar Friðriksson
  • Gunnar Gunnarsson 
  • Þórunn Ólafsdóttir
  • Þröstur Óskarson

Varamenn voru kosnir

  • Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir
  • Nína Hrönn Gunnarsdóttir
  • Pétur  Magnússon

Skoðunarmenn reikninga voru kosnir: Magnús Skúlason og Árni Sverrisson      

Önnur mál

Magnús Skúlason óskaði nýjum formanni og stjórn velfarnaðar í starfi.  Hann lagði áherslu á að landssamtökin séu virk í umræðunni um heilbrigðismál eins og sjúkraflutninga og rekstarerfiðleika  hjúkrunarheimila. Hann nefndi sem dæmi hjúkrunarheimilin Sólvang og Sunnuhlíð,  og að ýmsar heilbrigðisstofnanir út um landið reka hjúkrunarrými  sem þyngja reksturinn og mikilvægt sé að fjárveitingar til stofnana taki mið af því.

Hildigunnur Svavarsdóttir nýr formaður landssamtakanna kvaddi sér hljóðs og þakkaði traustið sem henni var sýnt með kosningu í formannsstarfið.  Hún sagðist hlakka til að eiga gott samstarf við stjórn á komandi kjörtímabili.

Hreyfiseðlar

Auður Ólafsdóttir sjúkraþjálfari  sagði frá innleiðingu Hreyfiseðla í heilsugæslu. 

Innleiðing er hafin á notkun hreyfiseðla sem eru ávísun á hreyfingu sem meðferðarúrræði.  Með þeim geta læknar ávísað hreyfingu þar sem hennar er þörf.  Hreyfiseðlar hafa verið innleiddir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og á heilsugæslustöðinni á Akureyri.  Innleiðing þeirra annars staðar á landinu og hjá sérfræðilæknum verður haldið áfram. Stefnt er að því að henni verði að fullu lokið fyrir árslok 2016.

Kaffihlé

Dagskrá velferðarráðuneytisins

Anna Lilja Gunnarsdóttir  og Sveinn Magnússon  fluttu fréttir úr ráðuneytinu.

Anna Lilja fór yfir breytingar á skipuriti velferðarráðuneytisins sem tekur gildi um næstu mánaðamót.  Breytingarnar lúta að því að fagskrifstofurnar heyra nú undir annan hvorn ráðherrann, en ekki báða eins og áður var. Fagskrifstofur heilbrigðismála heyra undir heilbrigðismálaráðherra og fagskrifstofur félagsmála heyra undir félagsmálaráðherra. Annað er óbreytt,  sjá heimasíðu velferðarráðuneytisins http://www.velferdarraduneyti.is/raduneyti/skipulag/

Sveinn fór stuttlega yfir fyrirhugaða sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, en ein heilbrigðisstofnun verður í hverju heilbrigðisumdæmi, það er á Norðurlandi, Suðurlandi og Vestfjörðum.  Nýju heilbrigðisstofnanirnar taka til starfa haustið 2014 sem mun fækka stofnunum úr ellefu í þrjár. 

Í máli Sveins kom fram að starfsmönnum ráðuneytisins hafi fækkað nokkuð og var fólki í ráðuneytinu sagt upp í morgun. Anna Lilja minnti á að um miðjan febrúar muni ráðuneytið senda út forstöðumannakönnun  og  hvatti menn til að taka þátt í könnuninni.  Hún nefndi að 30. janúar 2014 væri heilbrigðisráðherra búin að bjóða forstöðumönnum heilbrigðisstofnana til kynningar í Norræna húsinu þar sem kynna á tillögur að betra heilbrigðiskerfi.

Að framsögu Önnu Lilju og Sveins lokinni bauð fundarstjóri upp á fyrirspurnir.

Lilja Stefánsdóttir framkvæmdastjóri á LSH spurði  hvort Embætti Landlæknis sinnti nægilega vel því tvíhöfða hlutverki sem því er ætlað, framkvæmd og eftirliti, og hvort breytinga væri að vænta hvað þetta varðar. Sveinn svaraði því þannig til að menn vilji sjá hvernig málin þróast og að EL sé ekki öfundsvert af þessu tvíhöfða hlutverki.

Lilja bar fram aðra spurningu og óskaði eftir upplýsingum varðandi eftirlit Lyfjastofnunar með lækningartækjum en aðeins er gert ráð fyrir 20% stöðu til að sinna eftirlitinu. Anna Lilja svaraði því til að verið væri að skoða málið og finna leiðir til  lausnar.

Magnús Ólason, læknir á Reykjalundi spurði um S-lyfin og greiðslur fyrir þau til stofnana.  Sveinn svaraði því til að S-lyfin séu mörgum stofnunum mjög þung í skauti. Birgir á Reykjalundi sagði að samræma þurfi hvernig S-lyfin séu fjármögnuð og að mikilvægt sé að setja  stofnanir  ekki í þá aðstöðu að hafna meðferð með S-lyfjum vegna þess að þær hafi ekki efni á þeim. Sveinn tók undir það.

Magnús Skúlason benti á að endurskoða þurfi rekstrarviðmið hjúkrunarheimila í ljósi þess rekstarvanda sem sum hjúkrunarheimili standa frammi fyrir. Spurt  var hvað liði flutningi málaflokks aldraðra til sveitarfélaganna. Sveinn svaraði því þannig til að hæg hreyfing væri á því máli og ekki í sjónmáli hvenær af því yrði.

Fundarstjóri þakkaði Önnu Lilju og Sveini fyrir komuna og fundarmönnum fundarsetuna og sleit fundi.

 

Fundi slitið kl. 16:00

Þórunn Ólafsdóttir.