Fundagerð aðalfundar 2011

Aðalfundur Landssambands heilbrigðisstofnana haldinn  2. des. 2011 kl. 13:30 á Hótel Natura.

Formaður stjórnar Birgir Gunnarsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna.  Formaður tilnefndi Sigríði Snæbjörnsdóttur  fundarstjóra og  Esther Óskarsdóttur  fundarritara.

Sigríður tók við stjórn fundarins og fór yfir dagskrána.

Birgir Gunnarsson fór yfir skýrslu stjórnar fyrsta starfsár LH og rakti hvað hefði verið gert, hvað hefði áunnist og hvað mætti betur fara. Í stjórninni auk Birgis eru þau: Margrét Guðjónsdóttir, Erna Einarsdóttir, Magnús Skúlason og Stefán Þórarinsson. Varamenn eru: Þröstur Óskarsson, Þórunn Ólafsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir. 

Í tengslum við stofnfund sambandsins var haldin ráðstefnan - heilbrigðiskerfið 2015. Framsögumenn voru þáverandi og fyrrverandi heilbrigðisráðherrar ásamt stjórnendum í heilbrigðiskerfinu og fræðimönnum.  Tilgangurinn var að varpa ljósi á hvers konar heilbrigðisþjónusta væri til staðar  í kjölfar niðurskurðar frá bankahruni.

Stjórnin lagði strax áherslu á að auka samstarf og samskipti sambandsins og stofnana þess við heilbrigðisyfirvöld.  Á fundi sem stjórnin óskaði eftir með ráðherra og yfirstjórn ráðuneytisins var m.a. farið yfir þessi tengsla og upplýsingamál. 

Vorfundur sambandsins var haldinn dagana 12. -13.  maí á Hótel Selfossi með yfirskriftinni "Horft til framtíðar". Dagskráin var í samvinnu við Velferðaráðuneyti  fyrri daginn og fræðsluerindi seinni daginn.  Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari A-liðs kvenna í knattspyrnu flutti m.a. erindi "Hvað þarf til að ná árangri - hugarfar sigurvegarans". 

Í kjölfar áframhaldandi niðurskurðaráforma stjórnvalda ákvað LH og Félag forstöðumanna sjúkrahúsa að senda sameiginlega ályktun varðandi áhrif frekari niðurskurðar á þjónustuna og  að mörkuð verði stefna um skipulag og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.  Ályktunin var afhent á fundi 5. sept. þar sem málefnalega var farið yfir stöðu mála.  
Í framhaldi af þessu fór í gang úttekt á heilbrigðisþjónustunni með aðstoð ráðgjafahóps frá Boston Consulting group.  Einnig var upplýst um sparnað einstakra stofnana.

LH stóð einnig fyrir ráðstefnu í samvinnu við félag forstöðumanna sjúkrahúsa og samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu með yfirskriftinni "Niðurskurður í heilbrigðisþjónustu".

Önnur ályktun var gerð á fundi LH sem haldinn var á Akureyri um mikilvægi nálægðar Reykjavíkurflugvallar við Landspítalann. Í ályktuninni kom einnig fram mikilvægi þess að byggja nýjan Landspítala og forsenda fyrir bráðasjúkrahúsi landsbyggðarinnar sé að flugvöllurinn verði á sama stað.

Formaður upplýsti um heimasíðu sambandsins sem upplýsingamiðil stjórnar við stofnanir. Margrét Guðjónsdóttir er umsjónamaður heimasíðunnar.

Þá kom einnig fram hjá formanni að heppilegast er að halda vorfundina utan höfuðborgarsvæðisins til þess að hrista hópinn betur saman. Formaður þakkaði stjórnarmönnum gott samstarf og sérstaklega Margréti og Ernu sem ganga úr stjórninni að þessu sinni.

Skýrsla formanns var samþykkt samhljóða. Björn Zoega þakkaði góða skýrslu og gott starf - en harmar þá ályktun sem stjórn LH gerði um staðsetningu flugvallarins -  sem gengur gegn hagsmunum LSH og taldi nauðsynlegt að efla samstöðu og samvinnu milli stofnana.  Frekari skýringar komu seinna frá Birni um málið þar sem m.a. kom fram að þessi ályktun gæti haft áhrif á deiliskipulag sem enn væri í vinnslu og verið væri að blanda saman uppbyggingu á nýjum spítala og staðsetningu flugvallarins.   Formaður þakkaði ábendinguna og harmaði það ef ályktunin gengi gegn hagsmunum LSH og ítrekaði vilja stjórnarinnar um gott samstarf.

Magnús Skúlason, gjaldkeri, fór yfir reikninga félagsins sem afhentir voru á fundinum. Ársreikningurinn nær yfir tímabilið 09.06.2010 - 31.08.2011 og yfirfarnir og undirritaðir af skoðunarmönnum félagsins þeim Árna Sverrissyni og Sigríði Snæbjörnsdóttur. Magnús fór yfir sundurliðun á rekstrar- og efnahagsreikningi  ásamt sjóðstreymi.  Samtals eru tekjur 688 þúsund sem eru árgjöld og vaxtatekjur. Gjöldin eru samtals 627 þúsund  þannig að tekjur umfram gjöld eru 60 þúsund. Einnig var farið yfir eignir og skuldir og fram kom að höfuðstóll við stofnun sambandsins var 3.8 millj. Reikningarnir  voru  samþykktir samhljóða.

Lögð var fram tillaga um að árgjöld yrðu óbreytt  en þau taka mið af fjárheimildum stofnanna og samþykkt samhljóða. Þá var einnig lögð fram fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár og samþykkt samhljóða.  

Komið var að liðnum lagabreytingar - en engar tillögur höfðu borist til stjórnarinnar.

Kosning stjórnar:  Úr stjórninni ganga Margrét Guðjónsdóttir og Erna Einarsdóttir.  
Tillaga að stjórn:  Birgir Gunnarsson, formaður, sem samþykkt var samhljóða. 
Tillaga um aðalmenn í stjórn:  Magnús Skúlason, Stefán Þórarinsson, Jón Hilmar Friðriksson og Þórunn Ólafsdóttir. Samþykkt samhljóða.
Tillaga um varamenn: Þröstur Óskarsson, Herdís Klausen og Steinunn Sigurðardóttir. Samþykkt samhljóða. 
Tillaga um skoðunarmenn:  Árni Sverrisson og Sigríður Snæbjörnsdóttir. Samþykkt samhljóða.

Í lokin voru umræður um athugasemdir Björns Zoega varðandi ályktun samtakanna og lagði fundarstjóri til að ályktanir væru sendar út til forstöðumanna.

Að loknum aðalfundarstörfum var kaffihlé til kl. 14:40.

Eftir kaffihlé  var á dagskránni kynning ráðuneytisstjóra Önnu Lilju Gunnarsdóttur og Sveins Magnússonar, skrifstofustjóra,  um úttekt ráðgjafahóps Boston Consulting group á heilbrigðisþjónustunni. Vinna ráðgjafahópsins  var framkvæmd á 5 vikum í haust með ráðgjafavinnu og heimsóknum þar sem farið var yfir skipulag heilbrigðiskerfisins og ráðstöfun fjármagns. Þjónustan kortlögð m.v. árangur  og haft til hliðsjónar jafnræði, gæði og hagkvæmni.  Niðurstaðan sýndi að gæðin væru góð, aðgengi gott og ótakmarkað aðgengi til sérfræðilækna.  Fram kom m.a. að skipuleggja þarf betur aðgengi þjónustunnar, lækka lyfjakostnað, endurskipuleggja reksturinn og að áætlanir væru til lengri tíma en eins árs.  Niðurstaðan sýndi einnig að ekki væri fyrir hendi samræmd sjúkraskrá - sem væri afar brýnt.  Skýrslan sýndi einnig, að fjölga  þurfi námstækifærum í heilsugæslunni, efla upplýsingaþjónustu og símaráðgjöf. Efla þurfi heilbrigðiþjónustuna með tilliti til gæða og hagkvæmni og að hugsanlega væru heilbrigðisumdæmin of mörg.

Í kjölfar úttektar BCG hafa verið tilnefndir 9 vinnuhópar  af hálfu Velferðaráðuneytisins og skipaðir formenn fyrir hvern hóp - sem skila grófri verkefnisáætlun um útfærslur og framkvæmd fyrir 19. des. n.k.

Að lokinni kynningu þeirra Önnu Lilju og Sveins voru nokkrar umræður.  Mikil umræða um samræmda sjúkraskrá og kostnað. Einnig mikil umræða um nauðsyn breytinga á kostnaði sérfræðiþjónustunnar.  Fundamenn lýstu ánægju sinni með úttekt BCG og samantekt skýrslunnar.

Formaður þakkaði Önnu Lilju og Sveini fyrir greinargóðar upplýsingar og þakkaði síðan fundarmönnum fyrir fundarsetuna.

 

Fundi slitið kl. 15:45
Esther Óskarsdóttir

Skrifað af MG