25.04.2012 09:34
Haldinn var fundur í stjórn Landsamtaka heilbrigðisstofnan 28. mars 2012, kl. 11 að Reykjalundi.
Mættir: Birgir Gunnarsson, Jón Hilmar Friðriksson, Magnús Skúlason, Herdís Klausen og Þórunn Ólafsdóttir sem ritaði fundargerð.
Stefán Þórarinsson og Þröstur Óskarsson boðuðu forföll.
Þetta gerðist:
1. Vorfundur
Rætt var um fyrirkomulag vorfundarins, sem haldinn verður á Hótel Héraði á Egilsstöðum 10. og 11. maí. Búið er að ganga frá því við hótelið að gisting og fundaraðstaða er til reiðu fyrir fundinn.
Sett voru saman drög að dagskrá fundarins. Stefán og Jón Hilmar höfðu undirbúið málið og kynnti JH hugmyndir þeirra á fundinum. Gert er ráð fyrir að dagskráin hefjist kl.13 fimmtudaginn 10. maí og ljúki kl. 12 á hádegi föstudaginn 11. maí.
Fimmtudagurinn 10. maí verður tvískiptur. Fyrri hluti dagskrárinnar þann daginn verður á vegum Velferðarráðuneytisins, væntanlega um stöðu mála hvað varðar Boston Consulting vinnuna og mun Stefán vera í sambandi við ráðuneytið hvað það varðar.
Seinni hlutinn fjallar síðan um rafræna sjúkraskrá, stöðu mála hvað varðar nýtt skipulag og framtíðarsýn. Ráðgert er að fá Sigríði Haraldsdóttur frá Landlækni, Bjarna Jónsson frá LSH, sem er í vinnuhópi ráðuneytisins, og Ásgeir Böðvarsson lækni á Húsavík til að vera með 15-20 mínútna erindi hvert. Jón Hilmar mun sjá um það. Um kvöldið verður síðan sameiginlegur kvöldverður á hótelinu. Á föstudeginum er ráðgert að dagskráin hefjist kl.9:00 og standi til 12:00. Ákveðið var að bjóða heimamönnum að vera með dagskrárlið undir yfirskriftinni Austurland og kæmi þar annarsvegar innlegg frá heilbrigðisþjónustunni og hins vegar frá t.d. Alcoa. Stefán mun sjá um að skipuleggja þennan lið. Seinni hlutinn á föstudeginum f.h. yrði síðan helgaður liðnum ¨Mannauðsmál til framtíðar¨ og þar er ráðgert að Elsa Friðfinnsdóttir formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Stefán Þórarinsson yfirlæknir verði með innlegg. Birgir mun sjá um að ræða við Elsu og Stefán. Birgir mun jafnframt sjá um að senda út dagskrá vorfundarins eins fljótt og mögulegt er. Hvetja þarf fólk til að skrá sig og þarf þátttökulistinn helst að liggja fyrir fljótlega eftir páska.
2. Önnur mál
Magnús nefndi árgjöldin og lagði áherslu á að senda þarf út sem fyrst innheimtuseðil til stofnana innan Landsamtakanna. Jafnframt var rætt þátttökugjald á vorfundinum og var ákveðið að Magnús og Birgir fari yfir kostnaðinn við fundinn og kvöldverðinn og leggi fram tillögur að þátttökugjaldi.
Næsti fundur er boðaður 26. apríl kl. 13 að Reykjalundi.
Fundi slitið kl 12:00
ÞÓ.