11.10.2010 15:27
1. Fundur stjórnar Landsambands heilbrigðisstofnana - LH
Nýkjörin stjórn LH var boðuð til fundar á Reykjalundi föstudaginn 3. september 2010.
Mættir voru:
Aðalmenn: Birgir Gunnarsson formaður kosinn á stofnfundi, Magnús Skúlason, Margrét Guðjónsdóttir og Stefán Þórarinsson sem skrifaði fundargerð. Forföll boðaði Erna Einarsdóttir.
Varamenn: Þórunn Ólafsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir og Þröstur Óskarsson.
Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna.
Stjórn skipti með sér verkum:
- Birgir Gunnarsson formaður.
- Margrét Guðjónsdóttir varaformaður.
- Erna Einarsdóttir ritari.
- Magnús Skúlason gjaldkeri.
- Stefán Þórarinsson meðstjórnandi
Umræður um verkefni og verklag:
Það eru mikil átök fyrirsjáanleg vegna minnkandi ríkisúrgjalda til heilbrigðismála. Mikilvægt er við þessar aðstæður að koma á samstarfi á milli samtaka heilbrigðisstofnana og HBR sem nú er að renna saman við FTR og verða að ráðuneyti velferðarmála undir stjórn nýskipaðs ráðherra Guðbjarts Hannessonar.
Stjórnin telur mikilvægt að ná sambandi við ráðuneytið og hinn nýja ráðherra. Samband LS og LHH , sem voru fyrir rennarar LH, við HBR var lítið og stopult og það er vilji stjórnar að koma á reglubundnu sambandi við ráðuneytið og reyna að ná þeirri stöðu að LH verði sjálfsagður samstarfs-og umsagnaraðili ráðuneytisins því það er til staðar innan sambandsins mikil reynsla og fjölbreytt þekking.
Fundurinn telur mikilvægt að við endurskoðun Heilbrigðisáætlunar sem nú stendur yfir verði mótuð stefna fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu til næstu fimm ára auk þess sem sett verða lýðheilsumarkmið fyrir þjóðina.
Formanni er falið að setja sig í samband við ráðuneytið til þess að kynna sambandið og bjóða fram samvinnu þess. Að þeim fundi loknum er áhugi á því að koma á vinnufundi eða ráðstefnu um þau málefni sem helst brenna á heilbrigðiskerfinu.
Hjá stjórninni kom fram áhugi á því að halda árlegan vorfund eða fund strax eftir áramótin fyrir aðildarfélög LH til þess að miðla upplýsingum og þekkingu og skapa tengsl milli stofnana, stjórnenda og fagstétta. Þessum fundum þarf að dreifa um landið til þess að ná til sem flestra og auka kynningu á ólíkum aðstæðum og stofnunum innan sambandsins.
Samþykkt var að boða bæði aðalmenn og varamenn til stjórnarfunda.
Safna þarf netföngum þeirra sem sitja í framkvæmdastjórnum stofnana og senda þeim öllum upplýsingar og fréttir sem til verða innan LH. Frá stofnfundi LH hafa engar nýjar stofnanir sótt um aðild.
Áhugi er á því að skoða hvort heimasíða LHH,123.is, geti orðið heimasíða LH.
Stjórnin samþykkti einnig að öllum gögnum um stofnun og störf LS og LHH verði komið til Þjóðskjalasafns til varðveislu.
Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.