Aðalfundur LH 25. júní 2010 - Stofnfundur

Stofnfundur Landssambands heilbrigðisstofnana LH haldinn 25. júní 2010 kl. 11:00 í fundarsalnum Hvammi á Grand Hóteli.

Slitafundir höfðu farið fram hjá Landssambandi heilsugæslustöðva og heilbrigðisstofnana og Landssambandi sjúkrahúsa vegna samruna þessara félaga í  Landsamband heilbrigðisstofnana (LH).

Undirbúningsnefnd úr stjórnum fyrrum félaga tóku að sér að setja saman tillögu að stjórn fyrir hið nýja félag.  Í undirbúningsnefndinni voru:  Halldór Jónsson, Birgir Gunnarsson, Magnús Skúlason, Birna Bjarnadóttir, Kristján Guðmundsson og Margrét Guðjónsdóttir.
Halldór Jónsson fór yfir aðdraganda sameiningarinnar en LS hefur verið stafrækt frá árinu 1962 og LHH frá árinu 1992. Halldór upplýsti að 19 stofnanir hefðu verið í LS og því aðeins 3 stofnanir sem ekki voru í þeim samtökum. 22 stofnanir voru samtals í báðum þessum samtökum LS og LHH.

Halldór tilnefndi Björn Ástmundsson fyrrverandi forstjóra Reykjalundar sem fundarstjóra stofnfundarins.  
Björn þakkaði  traustið sem honum var sýnt og tilnefndi Esther Óskarsdóttur,  skrifstofustjóra HSu, sem fundarritara. 
Formlega hafa þessi samtök Landssamband sjúkrahúsa LS og Landssamband heilsugæslustöðva og heilbrigðisstofnana LHH  verið aflögð.

Margrét Guðjónsdóttir kynnti störf undirbúningsnefndarinnar og fór yfir drög að samþykktum fyrir hið nýstofnaða félag Landssamband heilbrigðisstofnana - LH.

Í  drögunum er farið yfir heiti samtakanna, hlutverk og tilgang, aðild að LH, aðalfund, stjórn og ýmis ákvæði.

Hlutverk félagsins er m.a. að efla samstarf heilbrigðisstofnana, standa vörð um hagsmuni þeirra og hlutverk, ásamt því að vera í forsvari fyrir stofnanir eftir því sem við á og lög heimila.
Að stuðla að samstarfi heilbrigðisstofnana við heilbrigðisyfirvöld, ráðuneyti og aðra. 
Að gangast fyrir upplýsinga- og fræðslustarfsemi í þágu stofnana í því skyni að ná fram hagkvæmni í rekstri og betri þjónustu og að stuðla að rannsóknum innan heilbrigðisþjónustunnar.

LH hyggst ná tilgangi sínum með eftirfarandi hætti:
Að skapa tengsl milli heilbrigðisstofnana á Íslandi. Að efna til funda og miðla upplýsingum um málefni heilbrigðisþjónustunnar. Að efla kynni þeirra sem starfa við heilbrigðisþjónustu. Að bregðast við málefnum er hafa áhrif á heilbrigðisþjónustu og að hvetja til rannsókna á heilbrigðisþjónustu.

Varðandi aðild að LH kemur fram að þær heilbrigðisstofnanir sem falla undir ákvæði  IV og V kafla laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 eiga rétt á aðild að LH. Sama á við um þær stofnanir sem falla undir 28. og 39. gr. laganna.  Aðildarumsókn skal samþykkt af stjórn samtakanna og kynnt á aðalfundi.  Sérhver stofnun fer með eitt atkvæði á aðalfundi samtakanna.  Árgjald tekur mið af stærð og rekstrarumfangi stofnananna.  Aðalfundur skal haldinn árlega á tímabilinu sept.-des. og boðað með mánaðar fyrirvara hið skemmsta. 
Stjórn LH skal skipuð fimm mönnum og þremur til vara. Formann skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn, en aðra stjórnarmenn og varamenn til tveggja ára í senn.

Undirbúningsnefndin tók að sér að setja saman tillögu að stjórn fyrir hið nýja félag.
Haft var að leiðarljósi að stjórnin myndi endurspegla breidd heilbrigðiskerfisins hvað varðar landshluta, starfsemi, starfsheiti og kyn. Einnig var talið æskilegt að fulltrúar fyrrverandi félaga myndu fylgja því nýja úr hlaði. Til að allir fari ekki úr stjórn á sama tíma eru sumir tilnefndir til eins árs og aðrir til tveggja ára.

Einnig kemur fram að stjórnin skal boða til fundar af formanni samtakanna eigi sjaldnar en tvisvar á ári með a.m.k. 7 daga fyrirvara. Í drögunum eru einnig ákvæði til bráðabirgða varðandi stjórnarkjör á stofnfundinum og eru þannig:  Kjósa skal tvo stjórnarmenn til eins árs og tvo til tveggja ára. Kjósa skal einn varamann til eins árs og tvo til tveggja ára.

Björn þakkaði  Margréti fyrir flutning hennar á samningsdrögum samtakanna sem einkennast af samvinnu milli heilbrigðisstofnanna, ríkisvalds og ráðuneytis en áður hefði hlutverk LS verið að gæta hagsmuna sjúkrahúsanna gagnvart ríkisvaldinu.

Þá voru drögin að samþykktum fyrir Landssamband heilbrigðisstofnana borin upp til samþykktar. Anna Lilja Stefánsdóttir gerði athugasemdir við að allar stofnanir hefðu aðeins eitt atkvæði á aðalfundi samtakanna án tillits til greiddra árgjalda sem miðast við stærð og rekstrarumfang stofnanna.  Fram kom að athugasemdir þurfa að berast fyrir fund til þess að hægt sé að bera upp breytingartillögu.

Drögin að samþykkt fyrir Landssamband heilbrigðisstofnana voru samþykkt samhljóða og samtökin formlega stofnuð.

Magnús Skúlason, fulltrúi í undirbúningsnefndinni og fyrrverandi gjaldkeri LS, óskaði fundamönnum til hamingju með þessi nýju samtök . Magnús fór yfir stofnefnahagsreikning fyrir hin nýju samtök , sem er sameining efnahags LS og LHH. 
Fram kom að innistæður á þremur bankareikningum eru kr. 3.596.853,oo og útistandandi árgjöld v/2008 og 2009 frá LS eru kr. 212.000,oo. Höfuðstóll við stofnun LH er því samtals kr. 3.808.853,oo. Þá lagði Magnús fram tillögu um árgjald í samtökunum sem tekur mið af stærð og rekstrarumfangi stofnanna og upphæð árgjalda  á bilinu  12 - 50 þúsund.  Árgjald stofnanna gerir 560 þúsund pr. ár. Sérhver stofnun fer með eitt atkvæði á aðalfundi samtakanna.   
Magnús lagði einnig fram drög að fyrstu fjárhagsáætlun sambandsins. 

Stofnefnahagsreikningur, árgjald  og fjárhagsáætlunin var samþykkt samhljóða.

 Landssamband heilbrigðisstofnana (LH)  því formlega stofnað kl. 11:30.

Þá var komið að stjórnarkosningum og uppstilling að stjórn lögð fram samkvæmt tillögum undirbúningsnefndar - en  einnig kom fram að aðrar uppástungur væru  velkomnar.

Á fundinum var samþykkt samhljóða eftirfarandi kosning:
Formaður til eins árs:     Birgir Gunnarsson, forstjóri Reykjalundi             
Aðrir stjórnarmenn:        Magnús Skúlason, forstjóri HSu.  Fyrrum stjórnarmaður í LS. Til tveggja ára.
Margrét Guðjónsdóttir, forstjóri  Heilsugæslust. á Akureyri og  fyrrum stjórnarmaður í LHH. Til eins árs.  Erna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspt. Til eins árs. Stefán Þórarinsson, framkvæmdastjóri lækninga HSA. Til tveggja ára. 
Varamenn:    Þórunn Ólafsdóttir, framkvæmdastj. hjúkrunar, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis. Til eins árs.  Þröstur Óskarsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Til tveggja ára. Steinunn Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Til tveggja ára. 
Skoðunarmenn til eins árs:   Árni Sverrisson og Sigríður Snæbjörnsdóttir. Til vara Jón Helgi Björnsson.

Önnur mál:
Birgir Gunnarsson nýkjörinn formaður þakkaði traustið og sagðist vonast til að standa sig vel sem formaður þessara nýju samtaka.  Þá nefndi Birgir m.a. að núna væri mikil þörf á öflugum samtökum og þétt samstarf og góð samvinna við heilbrigðisyfirvöld nauðsynleg. 

Í tengslum við stofnfund LH  verður haldin ráðstefna frá kl. 13:00-16:30 "Heilbrigðiskerfið 2015". Þar verður reynt að svara áleitnum spurningum um það hvernig heilbrigðiskerfið muni komast í gegnum niðurskurð og þrengingar sem framundan eru. Hvað þarf að breytast og hvernig, hvaða leiðir þarf að fara  til að tryggja áfram góða þjónustu? Hvað er nauðsynlegt að gera varðandi sameiningar, samvinnu og/eða niðurlagningu stofnana? 
Frummælendur leitast við að svara þessum spurningum og varpa sinni sýn á það hvernig heilbrigðiskerfið eigi að líta út árið 2015.

Þá var komið að lokaorðum fundarstjóra sem upplýsti fundamenn m.a.  um að nokkrir fyrrverandi forstöðumenn hittast reglulega og fara yfir málin. Þetta er hið svokallaða  "skuggaráðuneyti"  sem fylgist grannt með og sérstaklega  verður vel fylgst með  hvort lífsmark verður hjá hinum nýju samtökum.

Að lokum þakkaði Björn Ástmundsson fundamönnum gott hljóð og  fyrir góðan fund.

 

 

Fundi slitið kl. 11:40
Esther Óskarsdóttir, fundarritari



                                         

 

 

Skrifað af MG