Tengslahópur um sameiningu heilbrigðis- og félags- og tryggingamálaráðuneytis

Fyrsti fundur tengslahóps um sameiningu ráðuneyta var haldinn í Vegmúla 3, 23.nóvember 2010. Þeim hópi er ætlað það hlutverk að vera tengiliður og ráðgefandi við undirbúning og sameiningu. Margrét Guðjónsdóttir er fulltrúi LH í tengslahópi.

Mættir voru fulltúar verkefnisstjórnar um sameininguna og ýmsir fulltrúar úr tengslahópi. Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra kynnti nýskipaðan ráðuneytisstjóra velferðarráðuneytis frá 1. janúar 2011, Önnu Lilju Gunnarsdóttur. Í framtíðarsýn fyrir nýtt ráðuneyti verður lögð áhersla á að sameiningin verði til þess að bæta þjónustu við notendur og viðskiptavini.

Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri félags- og tryggingamálaráðuneytis sagði frá vinnu við nýtt skipurit og starfi átta vinnuhópa úr báðum ráðuneytum sem vinna að greiningu og útfærslu einstakra verkþátta sem grunn að skipulagi fagsviða ráðuneytisins. Áætlað er að kynna nýtt skipurit eigi seinna en 10. desember.
Guðríður Þorsteinsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytis ræddi um starfsmannamál við sameininguna en öllum starfsmönnum verður boðið starf í nýju ráðuneyti. 
Anna Lilja Gunnarsdóttir lagði áherslu á samráð og upplýsingagjöf. 
Fjóla María Ágústsdóttir verður tengiliður verkefnisstjórnar við fulltrúa tengslahópsins. 
Stefnt er að öðrum fundi með tengslahópi í desember.

Skrifað af Margréti Guðjónsdóttur