Til fulltrúa í framkvæmdastjórnum stofnana innan LH

Stjórn Landssambands heilbrigðisstofnana hélt sinn fyrsta fund í byrjun september.  Á þeim fundi var einkum rætt um þá erfiðleika sem við blasa sökum niðurskurðar í ríkisbúskapnum sem koma til með að hafa afdrífarík áhrif á heilbrigðisþjónustu í landinu.  Stjórnin var sammála um að það væri forgangsverkefni að bæta samskipti og samráð milli  heilbrigðisstofnana og Heilbrigðisráðuneytis en því hefur verið ábótavant um árabil. Kom það berlega í ljós í kjölfar birtingu fjárlagafrumvarpsins sem virðist hafa komið forstöðumönnum sem og öðrum á óvart.  

Ákveðið var að óska eftir fundi með heilbrigðisráðherra til að ræða þessi mál og aðgerðir til úrbóta.  Stjórnin fékk fund með ráðherra 7. október s.l. þar sem áhersla var lögð á þessi mál þ.e. almenn umkvörtun forstöðumanna heilbrigðisstofnana um skort á samvinnu og samráði af hálfu HBR.  Auk ráðherra voru á fundinum aðstoðarmaður ráðherra, ráðuneytisstjóri auk þriggja annara starfsmanna ráðuneytisins.  Af hálfu LH mættu þau Birgir Gunnarsson, Margrét Guðjónsdóttir og Magnús Skúlason. 

Ágætar umræður voru á fundinum og lýsti ráðherra sig fúsann til samstarfs og reiðubúinn til að koma samskiptamálum í betra horf. Stjórn LH viðraði hugmynd að sameiginlegum fundi LH og HBR með framkvæmdastjórnum stofnana þar sem farið yrði yfir þessi mál og leitað lausna.  Stjórn LH óskaði einnig eftir að heilbrigðisráðherra tilnefndi tengilið HBR við LH. HBR lýsti yfir vilja sínum til að funda með stjórnum allra heilbrigðisumdæma (samráðsnefnda) auk þess að skipa tengilið HBR við LH.  Í framhaldi af þeim fundum verður síðan metið hvort ástæða sé til að boða til stærri vinnufundar í samræmi við tillögu LH.  Stjórn LH mun fylgja málinu eftir og leggja sitt af mörkum til að úrbætur nái fram að ganga.  Á fundinum var einnig rætt um vinnulag við fjárlagagerð og það að forsendur fjárlaga skuli ekki liggja fyrir fyrr en í október.  Það eitt og sér gerir það að verkum að virkni uppsagna kemur ekki fram fyrr en langt er liðið á næsta ár í mörgum tilvikum. 

Stjórn LH mun upplýsa um framvindu mála á heimasíðu sambandsins.  Unnið er að endurbótum á heimasíðunni http://lhh.123.is og hvetjum við ykkur til að fylgjast með gangi mála þar.  Á síðunni verða fundargerðir stjórnar aðgengilegar ásamt samþykktum LH o.fl.  

Reykjalundi 11. október 2010 

F.h. Stjórnar LH 

Birgir Gunnarsson formaður

Margrét Guðjónsdóttir varaformaður